Hoppa yfir valmynd
21.9.2020
Forstjóri Isavia meðal 1000 viðskiptaleiðtoga sem endurnýjar stuðning við sáttmála SÞ

Forstjóri Isavia meðal 1000 viðskiptaleiðtoga sem endurnýjar stuðning við sáttmála SÞ

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, var á dögunum meðal 1.294 forstjóra og framkvæmdastjóra frá ríflega eitt hundrað löndum til að undirrita yfirlýsingu viðskiptaleiðtoga þar sem kallað er eftir endurnýjaðri samvinnu á alþjóðavettvangi. Isavia er í hópi þeirra fyrirtækja sem eru virkir aðilar að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni, þ.e. UN Global Compact, og voru það leiðtogar þeirra fyrirtækja sem undirrituðu yfirlýsinguna. Þar með lýsa þeir yfir stuðningi við Sameinuðu þjóðirnar og fjölþjóðlega og marghliða samvinnu án aðgreiningar.

Það var Sanda Ojiambo, framkvæmdastjóri UN Global Compact, sem afhenti António Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, yfirlýsinguna við upphaf fundar Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þar sem 75 ára afmæli samtakanna var fagnað.

Við það tækifæri sagði Sanda Ojiambo að með yfirlýsingunni væri lögð áhersla á mikilvægi samvinnu þvert á landamæri, geira viðskiptalífs og kynslóðir þannig að betur væri hægt að laga sig að breyttum aðstæðum í heiminum. Hún þakkaði forstjórum fyrirtækja víða um heim fyrir stuðning við alþjóðlega samvinnu á þeim miklum tímamótum sem Sameinuðu þjóðirnar og heimurinn allur stæðu nú á.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir að í yfirlýsingunni komi fram að leiðtogar viðskiptalífsins í heiminum staðfesti að friður, réttlæti og sterkir innviðir komi að gagni til að tryggja til lengri tíma lífvænleika fyrirtækja og stofnana sem þessi hópur leiðtoga stýri. „Þessir innviðir eru grundvöllur þess að hægt sé að verja og styrkja tíu meginreglur Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni,“ segir Sveinbjörn. „Við erum öll saman á þessari vegferð, alveg óháð því hvar við búum í heiminum og hvaðan við komum. Á viðsjárverðum tímum skiptir sérstaklega miklu að styðja við þetta mikilvæga verkefni Sameinuðu þjóðanna og gera allt sem hægt er til að beina heiminum í átt til jafnræðis og sjálfbærni.“

Yfirlýsingin sem forstjóri Isavia og fleiri viðskiptaleiðtogar um allan heim hafa undirritað styður einnig við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sér í lagi markmið númer 16 um frið og réttlæti. Isavia er aðili að alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu og vinnur að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.