Hoppa yfir valmynd
8.1.2020
Fræðslumyndband um mansal

Fræðslumyndband um mansal

Fræðslumyndband um mansal, sem framleitt var af Saga Film fyrir Isavia, hefur verið sett inn í námsumsjónarkerfi félagsins og birt á YouTube rás Isavia á íslensku og ensku og einnig með texta.

Myndbandið er hluti af þjálfun sem ætluð er öllum starfsmönnum  sem eru í beinni snertingu við farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.  Markmið fræðslunnar er að  starfsmenn geti  borið kennsl á mansal og þekki réttar boðleiðir vegna tilkynninga. Fræðslan er hluti af vinnu félagsins með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem aftur tengjast stefnu félagsins varðandi samfélagsábyrgð.

Starfsmenn horfa á myndbandið og svara í framhaldinu spurningum um efni þess. Í myndbandinu er fjallað um: 

  • Hvað er mansal
  • Helstu gerðir mansals
  • Hvernig megi greina mansal
  • Hvert eigi að tilkynna grun um mansal

Mansal er ein alvarlegasta birtingarmynd ofbeldis og er mikið vandamál í Evrópu. Árlega eru milljónir manna, aðallega ungar konur og börn, seld mansali og neydd í kynlífsþrælkun, vændi eða nauðungarvinnu. Á flugvöllum getum við orðið vör við hugsanlega þolendur mansals hvort sem um er að ræða farþega ı́ tengiflugi eða þá sem eru að heimsækja Ísland ı́ lengri eða skemmri tíma.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, er viðmælandi í myndbandinu og veitti ráðgjöf við gerð þess. Hún segir að mansal sé mun algengara en fólk gruni.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir að fyrirtæki í flugvallarekstri víða um heim hafi á síðustu misserum vakið athygli á mansali og hvatt til aðgerða gegn því. „Við markmiðasetningu í samfélagsábyrgð fyrir síðasta ár lagði samfélagsteymi Isavia, sem samanstendur af starfsfólki þvert á svið fyrirtækisins, til þetta markmið til að vinna að,“ segir Sveinbjörn. „Fræðsla til handa starfsmönnum er nú komin í gang. Okkar starfsfólk, þar á meðal fræðsludeild Isavia, tóku verkefnið föstum tökum og unnu frábært starf í samvinnu við Lögreglustjórann á Suðurnesjum.“

„Það skiptir máli að allir séu meðvitaðir og allir séu að horfa eftir þessu,“ segir Alda Hrönn. „Alveg sama hvaða hlutverki þú gegnir innan flugstöðvar. Ef einhver ber kennsl á eða finnst eitthvað skrítið í hátterni fólks þá á alltaf að tilkynna til lögreglu í síma 112.“

Fjallað var um myndbandið í þættinum Ísland í dag á Stöð 2, þriðjudagskvöldið 7. janúar. Þar var rætt við Öldu Hrönn og Hrönn Ingólfsdóttur, forstöðukonu verkefnastofu Isavia.