Hoppa yfir valmynd
28.11.2014
Fríhöfnin er sigurvegari í Evrópu annað árið í röð

Fríhöfnin er sigurvegari í Evrópu annað árið í röð

Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli, dótturfyrirtæki Isavia, hefur verið valin Besta fríhöfn í Evrópu í ár af 
tímaritinu Business Destinations og er það annað árið í röð.
 
Verðlaunin eru flokkuð niður eftir heimsálfum og er framúrskarandi fyrirtækjum á ýmsum sviðum í hverri heimsálfu veitt viðurkenning.
 
Viðurkenningar meðal fríhafna árið 2014
Evrópa – Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli
Norður-Ameríka - Duty Free Los Angeles International Airport
Suður-Ameríka - Rio de Janeiro Galeao Duty Free
Mið-Austurlönd - Dubai Duty Free
Afríka - Dufry Sharm el-Sheikh Airport
Eyjaálfa - SYD Airport Tax & Duty Free
 
The Business Destinations Travel Awards, sem voru núna veitt í sjötta skipti, njóta virðingar í alþjóðlegri ferðaþjónustu. Sigurvegarar eru valdir með kosningu fjölmenns hóps áhrifamanna á sviði viðskiptaferðalaga. Yfirlýst markmið með veitingu verðlaunanna er að vekja athygli á þeim aðilum sem
hafa náð athyglisverðum árangri í rekstri og eða nýsköpun og snjöllum lausnum á hinum ólíku sviðum ferðaþjónustunnar.
 
Sérstaða þessara verðlauna er fólgin í stærð dómnefndarinnar, sem er skipuð stórum og fjölbreytilegum hópi sérfræðinga úr viðskiptalífinu, m.a. stjórnendum viðskiptaferðalaga hjá 500 stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna (Fortune 500), félagsmönnum í Samtökum stjórnenda viðskiptaferðalaga (ACTE) og fleiri lykilmönnum á sviði viðskiptaferðalaga. Hópurinn leggur mat á þau fyrirtæki, sem hljóta tilnefningu, samkvæmt ákveðnum ströngum mælikvörðum.
 
Þau fyrirtæki sem hljóta tilnefningu Business Destinations eru valin af dómnefnd skipuð stjórnendum frá tímaritinu og búa þeir að samtals níutíu ára fjölmiðlareynslu af umfjöllun um viðskiptaferðalög og styðjast við mikið magn upplýsinga og gagna sem safnað hefur verið af starfsmönnum dómnefndarinnar.
 
Um Business Destinations
Í lesendahópi Business Destinations eru tæplega 100 þúsund eigendur fyrirtækja, forstjórar, stjórnendur og lykilstarfsfólk á sviði viðskiptaferðalaga og viðburðastjórnunar. Business Destinations er gefið út ársfjórðungslega.
 
Business Destinations er í eigu fjölmiðlafyrirtækisins World News Media (WNM) sem hefur höfuðstöðvar í London, sérhæfir sig í þjónustu við viðskiptalífið og gefur út tímaritin World Finance, European Ceo og The New Economy, auk Business Destinations.