Hoppa yfir valmynd
14.12.2020
Fundað með 23 flugfélögum

Fundað með 23 flugfélögum

Alþjóðlegu ráðstefnunni Routes Reconnected lauk nýverið. Hún var haldin með fjölda fjarfunda á heilli viku. Tilgangur hennar var að bjóða upp á vettvang þar sem fulltrúar flugfélaga og flugvalla gætu fundað um framtíðina eftir Covid-19 faraldurinn. Rætt var um þróun flugleiða og hvernig hægt væri að liðka enn frekar fyrir viðspyrnu og endurheimt í rekstri flugvalla og flugfélaga. Routes-ráðstefnur sem þessar hafa verið haldnar með reglulegu millibili víða um heim og er tilgangurinn að stofna til eða styrkja viðskiptasambönd og kynna áfangastaði eins og t.d. Ísland. Í ár varð að beita öðrum leiðum til að bjóða upp á viðlíka vettvang og var ráðstefna á netinu niðurstaðan.

Keflavíkurflugvöllur tók þátt í þessari ráðstefnu en flugvöllurinn hefur reglulega tekið þátt í hefðbundnum Routes-ráðstefnum. Meðal fulltrúa Keflavíkurflugvallar voru þau Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar, og Stefanía Júlíusdóttir, viðskiptastjóri flugfélaga og leiðaþróunar. Þau funduðu með fulltrúum flugfélaga sem áður hafa flogið um Keflavíkurflugvöll og einnig með nýjum félögum. 

Grétar Már segir að samtölin hafi gengið vel en eins og vanalega á ráðstefnum sem þessari þá sé fundað þétt og hver mínúta nýtt til hins ýtrasta.

„Þegar flug hefst á ný verður Keflavíkurflugvöllur í samkeppni við alla aðra erlenda alþjóðaflugvelli um þau flugfélög sem fara aftur af stað,“ segir Grétar. „Fulltrúar þessara flugvalla tóku einnig þátt í Routes Reconnected með sama markmið og við, þ.e. að halda sinni stöðu fyrir faraldurinn og bæta við hana. Við funduðum með fulltrúum 23 flugfélaga þessa viku sem ráðstefnan stóð og sáum þar gömul og ný andlit. Viðræður gengu vel en framhaldið á eftir að koma betur í ljós.“ 

Grétar er vongóður um þróun mála. „Það er hlutverk flugvalla, eins og flugfélaga, að endurvekja traust fólks til flugs og flugferða. Ég tel að Ísland sé í kjöraðstöðu þegar flug hefst fyrir alvöru á ný. Óbyggðir og óspillt náttúra er það sem farþegar munu sækjast eftir frekar en þrengsli og mannmergð og af plássi höfum við nóg.“