Hoppa yfir valmynd
6.12.2018
FYRSTA ÁÆTLUNARFLUG FRÁ KEFLAVÍKURFLUGVELLI TIL ASÍU

FYRSTA ÁÆTLUNARFLUG FRÁ KEFLAVÍKURFLUGVELLI TIL ASÍU

WOW air hefur hafið fyrsta beina áætlunarflug frá Keflavíkurflugvelli til Asíu, nánar tiltekið til Nýju Delí á Indlandi. Flogið verður þrisvar í viku með 345 sæta A330-300 flugvélum. Auk þess að vera fyrsta beina flugið til Asíu er þetta eini lágfargjaldakosturinn fyrir farþega sem ferðast milli Indlands og Norður-Ameríku, með þægilegri millilendingu í Keflavík.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, óskaði WOW air til hamingju með þennan merka áfanga.

„Það er söguleg stund þegar við í dag vígjum nýja flugleið flugfélagsins WOW air alla leið til Indlands,“ sagði Björn Óli. „Þetta er fyrsta áætlunarflug Íslendinga til Asíulanda og mikilvægur áfangi í ört vaxandi leiðakerfi félagsins, og einnig fyrir Keflavíkurflugvöll og okkur hjá Isavia.“

„Hingað til hefur Keflavíkurflugvöllur aðeins boðið upp á beint flug til Evrópu og Norður-Ameríku. 27% erlendra gesta á Íslandi koma frá stöðum utan þessara heimsálfa, og þessi markaður hefur stækkað um 11% á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 svo það er frábært að sjá WOW air tengja Keflavíkurflugvöll við nýjan heimshluta með beinu flugi til Nýju Delí,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar.

Stækkun leiðakerfis Keflavíkur með flugi til Nýju Delí kemur í kjölfar enn eins metársins hjá flugvellinum. Um 10 milljónir farþega hafa farið um Keflavíkurflugvöll í ár, sem þýðir að árið 2018 er níunda árið í röð sem fjölgun farþega hefur verið meiri en 10%, enda stefnir í að farþegar í ár verði 12% fleiri en árið 2017.