Hoppa yfir valmynd
20.4.2022
Fyrsta áætlunarflug Play til Bandaríkjanna

Fyrsta áætlunarflug Play til Bandaríkjanna

Play fór sitt jómfrúarflug til Bandaríkjanna í dag þegar flugfélagið fór sitt fyrsta áætlunarflug til Baltimore/Washington International flugvallarins. Í framhaldinu af þessu jómfrúarflugi verður flogið daglega til flugvallarins en áfangastöðum Play hefur farið fjölgandi síðan að það fór fyrst í loftið og kemur flugfélagið til með að bæta við fleiri áfangastöðum í Bandaríkjunum á næstu vikum.

Myndir: Isavia

„Þetta er mikilvægur dagur fyrir Isavia og okkur sem falið er að starfrækja Keflavíkurflugvöll. Við fögnum nýjum gestum og tökum vel á móti þeim. Þessi nýja flugtenging Play-flugfélagsins milli Íslands og Bandaríkjanna er enn ein staðfestingin á því að áform um stækkun og endurbætur á Keflavíkurflugvelli eru skynsamleg og byggð á vönduðum áætlunum,“ sagði Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia í tilefni dagsins.

Líf er að færast í Keflavíkurflugvöll eftir Covid-19 faraldurinn og flugferðum um völlinn fjölgar stöðugt. Búast má við að 24 flugfélög muni fljúga um Keflavíkurflugvöll í sumar, tveimur fleiri en flugu um völlinn í fyrra. Einnig mátti sjá að Íslendingar voru ferðaþyrstir eftir að draga fór úr umsvifum Covid-19.

„Mig skortir orð til að lýsa þeim ótrúlega krafti og vilja sem samstarfsfólkið mitt hjá Play hefur sýnt af sér til að láta þennan áfanga að verða að veruleika. Við erum að horfa fram á ótrúlega spennandi vegferð sem flugfélagið er að hefja með þessu Bandaríkjaflugi og það sem gerir þetta enn skemmtilegra eru þær ótrúlegu góðu viðtökur sem við finnum fyrir vestanhafs fyrir þessum nýja möguleika til að ferðast yfir Atlantshafið. Þeir sem standa utan Play munu seint átta sig á hversu flókið og erfitt það er að koma á flugáætlun til Bandaríkjanna en samstarfsfólk mitt hefur leyst hverja þraut eins og sannir fagmenn. Það er þeim að þakka að ég get stoltur staðið í stafni þessa félags og horft björtum augum á framhaldið,” sagði Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Myndir: @jonfromiceland