
Fyrsta flug Delta frá Boston til Íslands
Því var fagnað með vatnsboga þegar fyrsta flugvél Delta Airlines frá Boston lenti á Keflavíkurflugvelli í morgun. Þetta er í fyrsta sinn sem bandaríska flugfélagið býður upp á flug milli Boston og Íslands og fyrsta nýja alþjóðlega flugleiðin sem Delta bætir við frá upphafi Covid-19 heimsfaraldursins. Félagið býður upp á daglegt flug milli Boston og Keflavíkur til viðbótar við daglegt New York flug sem hófst í byrjun maí og flug til og frá Minneapolis sem hefst á ný í næstu viku. Flogið verður daglega frá þessum þremur áfangastöðum fram á haust.
Fram kemur í tilkynningu Delta að mikill áhugi sé á Íslandi hjá bólusettum bandarískum ferðalöngum og að þetta ár verði það umsvifamesta hjá Delta í farþegaflugi milli Bandaríkjanna og Íslands. Vegna mikillar eftirspurnar verði stærri 226 sæta Boeing 767 flugvélar notaðar í hluta flugferðanna í sumar.
Til viðbótar við Delta hafa bandaríska flugfélagið United Airlines og nýja íslenska flugfélagið Play boðað komu sína í sumar. Þau bætast við þau félög sem hafa flogið til og frá Keflavík í vetur og þau sem nýlega hafa hafið flug að nýju. Þau eru Icelandair, Wizz air, Lufthansa, Air Baltic, Transavia, Delta og Vueling.