Hoppa yfir valmynd
21.5.2021
Fyrsta flug Delta frá Boston til Íslands

Fyrsta flug Delta frá Boston til Íslands

Því var fagnað með vatnsboga þegar fyrsta flugvél Delta Airlines frá Boston lenti á Keflavíkurflugvelli í morgun. Þetta er í fyrsta sinn sem bandaríska flugfélagið býður upp á flug milli Boston og Íslands og fyrsta nýja alþjóðlega flugleiðin sem Delta bætir við frá upphafi Covid-19 heimsfaraldursins. Félagið býður upp á daglegt flug milli Boston og Keflavíkur til viðbótar við daglegt New York flug sem hófst í byrjun maí og flug til og frá Minneapolis sem hefst á ný í næstu viku. Flogið verður daglega frá þessum þremur áfangastöðum fram á haust.

Fram kemur í tilkynningu Delta að mikill áhugi sé á Íslandi hjá bólusettum bandarískum ferðalöngum og að þetta ár verði það umsvifamesta hjá Delta í farþegaflugi milli Bandaríkjanna og Íslands. Vegna mikillar eftirspurnar verði stærri 226 sæta Boeing 767 flugvélar notaðar í hluta flugferðanna í sumar.

Til viðbótar við Delta hafa bandaríska flugfélagið United Airlines og nýja íslenska flugfélagið Play boðað komu sína í sumar. Þau bætast við þau félög sem hafa flogið til og frá Keflavík í vetur og þau sem nýlega hafa hafið flug að nýju. Þau eru Icelandair, Wizz air, Lufthansa, Air Baltic, Transavia, Delta og Vueling.