Hoppa yfir valmynd
27.3.2012
Fyrsta flug easyJet lendir á Keflavíkurflugvelli

Fyrsta flug easyJet lendir á Keflavíkurflugvelli

Áætlunarflug easyJet frá Lutonflugvelli við London til Keflavíkur hófst í dag. Flugfélagið easyJet, er stærsta flugfélag Bretlands og mun fljúga til Íslands þrisvar í viku, þriðjudaga, fimmtudaga og sunnudaga í sumaráætlun og tvisvar í viku í vetraráætlun.
 
Fyrsta flug easyJet lenti í Keflavík klukkan 8.31 í morgun og var Davíð Ásgeirsson flugmaður sem starfar hjá félaginu við stjórnvölinn. Fulltrúar Isavia og breski sendiherrann, Ian Whitting, tóku á móti flugvélinni og fluttu ávörp. Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia óskaði félaginu til hamingju með nýju flugleiðina og sagði mjög jákvætt merki fyrir íslenska ferðaþjónustu að finna áhuga frá svo gríðaröflugu flugfélagi sem easyJet væri.
 
Talsmaður easyJet, Andrew McConnel kvað stjórnendur félagsins mjög ánægða með að flug til Íslands væri loks hafið. „Viðtökurnar sem við höfum fengið eru frábærar. Það stefnir í að flugleiðin til Íslands verði ein sú vinsælasta og því hefur easyJet ákveðið að fljúga allt árið til Íslands. EasyJet er ákveðið í að gera ferðalög hagkvæm og auðveld og þessi nýja flugleið mun fjölga viðskipta- og afþreyingarferðum milli landanna.“

EasyJet flýgur alls til 30 landa og er flugfélagið eitt hið stærsta í Evrópu með 200 flugvélar á meira en 600 flugleiðum.