Hoppa yfir valmynd
14.2.2013
Fyrsta flug easyJet til Manchester

Fyrsta flug easyJet til Manchester

Breska flugfélagið easyJet hóf flug milli Keflavíkur og Manchester í morgun en félagið hyggst fljúga þangað tvisvar sinnum í viku á fimmtudögum og sunnudögum. Sjötíu prósent farþega í fyrstu ferðinni til Manchester voru Íslendingar.

Forsvarsmenn easyJet segjast hafa mikla trú á íslenska markaðnum og stefna að frekari vexti í flugi til landsins. Félagið jók nýlega tíðni ferða til London og flýgur nú þangað fjórum sinnum í viku allt árið um kring. Þá hyggst easyJet einnig hefja flug til Edinborgar í Skotlandi 21. mars og verður flogið þangað tvisvar í viku.

Farþegum í fyrsta fluginu voru bornar veitingar í brottfararsal í boði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og klipptu Hafnfirðingurinn Ragnar Jóhannesson, sem var fyrstur farþega til að innrita sig í flugið, og Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri flugstöðvarinnar á borða í tilefni dagsins. 

Isavia óskar easyJet til hamingju með nýja tengingu við Keflavíkurflugvöll.