Hoppa yfir valmynd
16.5.2013
Fyrsta flug Icelandair milli Íslands og Anchorage í Alaska

Fyrsta flug Icelandair milli Íslands og Anchorage í Alaska

Icelandair hóf í gær, 15. maí, beint áætlunarflug milli Íslands og Anchorage í Alaska. Flogið verður tvisvar í viku til 15. september og tekur ferðin rúmar sjö klukkustundir, eða lítið eitt skemur en flug til Seattle og Denver. Flugleiðin til Anchorage liggur í norðurátt frá Íslandi, nærri Norðurpól þar sem dagsbirtu nýtur allan sólarhringinn að sumrinu.

„Töluverður straumur flugfarþega er á milli Evrópu og Alaska, bæði vegna öflugs atvinnulífs, sem m.a. byggir á fiskveiðum og olíu og gasvinnslu, og vegna ferðaþjónustu, en Alaska er mikil náttúru- og útivistarparadís. Þessir farþegar þurfa að millilenda í Bandaríkjunum á leið sinni. Með því að millilenda á Íslandi í staðinn geta þeir stytt ferðatíma sinn um nokkrar klukkustundir og í því felst sérstaða Icelandair á þessum markaði“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í frétt frá félaginu.