Hoppa yfir valmynd
17.5.2024
Fyrsta flug Icelandair til Pittsburgh

Fyrsta flug Icelandair til Pittsburgh

Þann 16. maí fór Icelandair í jómfrúarflug til Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Þessu fyrsta flugi var fagnað við brottför á Keflavíkurflugvelli. Klippt var á borða og boðið upp á veitingar fyrir farþega og aðra gesti.

„Við á Keflavíkurflugvelli óskum Icelandair til hamingju með nýjasta áfangastað sinn, Pittsburgh, og erum sannfærð um að viðbótin eigi eftir að skila sér margfalt til flugfélagsins og farþega þess,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia.

Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, og Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, klipptu á borða í tilefni fyrsta flugs Icelandair til Pittsburgh.

„Pittsburgh er nýjasta viðbótin í okkar öfluga leiðakerfi og sextándi áfangastaður okkar í Norður-Ameríku,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. „Norður-Ameríku markaður hefur verið mjög sterkur hjá okkur og hafa Bandaríkjamenn fest sig í sessi sem fjölmennastir ferðamanna sem heimsækja Ísland. Pittsburgh flugið fer vel af stað og er ánægjulegt að sjá að farþegar frá 25 Evrópulöndum hafa bókað flug með okkur til Pittsburgh um Ísland og þaðan hafa farþegar bókað flug til 30 áfangastaða Evrópumegin.“

Boðið verður upp á fjögur flug í viku til borgarinnar fram til októberloka.

Sveinbjörn segir það fagnaðarefni í hvert sinn sem nýr áfangastaður bætist við á Keflavíkurflugvelli. „Alþjóðasamtök flugvalla, Airport Council International, segja að 10% aukning í flugtengingum auki hagvöxt um 0,5% og það er ekki hvað síst ástæða til að fagna hverri nýrri viðbót okkar öflugu flugfélaga,“ segir Sveinbjörn.