Hoppa yfir valmynd
24.6.2021
Fyrsta flug Play í loftið

Fyrsta flug Play í loftið

Því var fagnað með vatnsboga þegar flugfélagið Play fór í jómfrúarferð sína í morgun. Flogið var til London. Fyrsta flugvél Play kom til landsins fyrir níu dögum og nú var haldið í fyrstu ferð félagsins.

Farþegar Play og starfsfólk flugfélagsins og Isavia fögnuðu áfanganum við hliðið áður en lagt var af stað. Birgir Jónsson, forstjóri Play, og Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, klipptu á borða við tilefnið.

Birgir sagði að starfsfólk Play hafi lagt dag við nótt í rúmt eitt og hálft ár við að undirbúa þennan dag. „Það er ótrúlega tilfinningarík stund að sjá þetta raungerast,“ sagði Birgir í ávarpi sínu og bætti við að þetta væri risastór dagur fyrir íslenska ferðaþjónustu. „Við sjáum að það er að létta til. Markaðir eru að opnast, ferðamenn eru að koma til landsins og við ætlum svo sannarlega að standa okkur í því og láta íslenska ferðaþjónustu og íslenskan efnahag finna fyrir okkur og okkar góðu áhrifum.“

„Það er ánægjulegt fyrir okkur sem störfum hjá Isavia og hér á Keflavíkurflugvelli að fagna fyrstu áætlunarferð Play til London,“ sagði Guðmundur Daði í ávarpi sínu og bætti við að síðustu misseri hefðu verið erfið í flugheiminum, eins og víðar. Heimsfaraldurinn hefði þrengt að mörgum flugfélögum og flugvöllum. „En nú er að birta til, eins og tilkoma Play vitnar um, og flugferðum til og frá landinu fjölgar stöðugt.“

Nýlega var tekin fyrsta skóflustunga að stórri viðbyggingu flugstöðvarinnar og sagði Guðmundur Daði það skapa nýja möguleika til vaxtar. Áfram yrði haldið í að bæta aðstöðu og upplifun fyrir flugfélög og farþega til að stuðla að góðri stöðu Íslands í þeirri miklu samkeppni sem sé í flugheiminum.

Play býður upp á ferðir til níu áfangastaða. Auk London eru það Alicante, Barcelona, Berlín, Kanaríeyjar, Kaupmannahöfn, París, Salzburg og Tenerife.