Hoppa yfir valmynd
27.5.2019
FYRSTA FLUG VOIGT TRAVEL OG TRANSAVIA TIL AKUREYRAR

FYRSTA FLUG VOIGT TRAVEL OG TRANSAVIA TIL AKUREYRAR

Fyrsta ferð Transavia með ferðamenn á vegum Voigt Travel kom mánudaginn 27. maí frá Rotterdam.  Þetta er fyrsta flugið af 16 hjá Transavia í sumar til höfuðstaðar Norðurlands. Við þetta tækifæri tilkynnti Cees van den Bosch, framkvæmdastjóri Voigt Travel að ákveðið hefði verið að fljúga frá flugvellinum á Akureyri til Amsterdam næsta vetur. Flogið yrði á mánudögum og föstudögum frá 14. febrúar. Farnar yrðu alls átta ferðir.

Flugleiðin er afrakstur viðamikils samstarfs Transavia og Voigt Travel. Flugfélagið hefur flogið til Lapplands í Finnlandi og Svíþjóð og norðurhluta Noregs um árabil fyrir Voigt Travel. Nú hefur Íslandi verið bætt við lista áfangastaða þess við heimskautsbauginn.

„Sem ferðaskrifstofa þurfum við stöðugt að skapa okkur sérstöðu,“ segir Cees van den Bosch, forstjóri Voigt Travel, sem var meðal farþega í þessu flugi til Akureyrar. „Ísland hefur aldrei verið vinsælla, en aðallega fyrir stutt stopp sem viðkomustaður, og þessi magnaði áfangastaður á betra skilið en það. Þess vegna höfum við vísvitandi valið að fljúga til Akureyrar til að gera farþegum okkar kleift að ferðast strax utan alfaraleiða og taka sér tíma til að kanna landið. Norðurhluti Íslands er enn að miklu leyti ósnortinn og þar má finna alveg jafnmikið af fossum, svörtum ströndum, eldfjöllum og leirböðum og á Suðvesturlandi.“

Charles Verstegen, framkvæmdastjóri: „Transavia er með sterka stöðu á þekktum ferðamannastöðum í Suður-Evrópu, Norður-Afríku og Miðausturlöndunum. Með þessu þægilega beina flugi til Akureyrar er nú einnig hægt að komast til norðurhluta Evrópu frá Hollandi á sumrin.“

Farþegar Voigt Travel, BBI Travel og Transavia fengu óvæntan glaðning við innritun þar sem þeir fengu gjafabréf fyrir skál af íslensku skyri á flugvellinum í Rotterdam. Um borð beið svo glaðningur frá Transavia og Voigt Travel. Strax eftir lendingu var flugvélin hyllt með heiðursboga úr vatni og í flugstöðinni tóku opinber sendinefnd og fjölmiðlar hlýlega á móti farþegunum.

Voigt Travel er hollensk ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í ævintýraferðum til nyrstu hluta Evrópu. Það er sú ferðaskrifstofa í heiminum sem býður upp á flest bein flug til heimskautasvæðisins í Evrópu. Voigt Travel býður upp á ferðir til átta áfangastaða í Lapplandi í Finnlandi og Svíþjóð, í Norður-Noregi og á Íslandi.