Hoppa yfir valmynd
31.5.2012
Fyrsta flug WOW air

Fyrsta flug WOW air

Skúli Mogensen eigandi WOW air, Baldur Oddur Baldursson, forstjóri WOW air og Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia klipptu á borðann í morgun.

WOW air hélt í fyrstu ferð sína til Parísar kl. 11 í dag, 31. maí, en félagið mun hefja formlegt áætlunarflug til 13 áfangastaða í Evrópu á sunnudaginn 3. júní.

Félagið notar tvær Airbus-flugvélar frá félaginu Avion Express sem merktar eru WOW Force One og WOW Force Two. Félagið boðar aukna samkeppni á markaði með það að markmiðum að gera flugferðir til og frá landinu ódýrari en áður hefur sést.

„Við erum verulega stolt af því að vera að hefja okkur til flugs í dag.  Þetta eru spennandi tímar, en við teljum ferðamannamarkaðinn á Íslandi vera að stækka og ætlum okkur hlut í þeirri köku. Við vonumst til að sjá áframhaldandi fjölgun í heimsóknum erlendra ferðamanna til og frá Íslandi en einnig vonumst við til að sjá aukningu hjá íslenskum ferðamönnum í kjölfar batnandi efnahagsástands og lækkandi flugfargjalda.  Við höfum nú þegar fengið móttökur framar björtustu vonum og erum innilega þakklát fyrir það“, sagði Baldur Oddur Baldursson forstjóri WOW air við athöfn á Keflavíkurflugvelli í tilefni af fyrsta flugi WOW air í morgun.

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia bauð félagið velkomið til starfa og óskaði því góðs gengis.