Hoppa yfir valmynd
2.12.2019
Fyrsta kínverska flugfélagið með áætlunarflug til Íslands

Fyrsta kínverska flugfélagið með áætlunarflug til Íslands

Kínverska flugfélagið Juneyao hefur hafið sölu á flugferðum frá Sjanghæ til Keflavíkurflugvallar með millilendingu í Helsinki í Finnlandi sem hefjast í vor. Greint var frá áformum flugfélagsins í Fréttablaðinu nýverið. Nú er sala á miðum hafin.

Þetta er í fyrsta sinn sem kínverskt flugfélag býður upp á og flýgur farþegum frá flugvelli í Kína til Keflavíkurflugvallar. Flogið verður tvisvar í viku. Fram kemur í Fréttablaðinu að áform félagsins geri ráð fyrir að flogið verði allt árið og að um 20 þúsund farþegar verði fluttir til landsins á næsta ári. Haft er eftir Xu Xiang, forstöðumanni Juneyao flugfélagsins á Norðurlöndum að félagið hafi fundið fyrir miklum áhuga kínverskra ferðalanga á Íslandi.

Juneyao Air er eitt af stærstu flugfélögunum í einkaeigu á meginlandi Kína. Félagið var stofnað í september 2006 og á nú 74 flugvélar, annars vegar Airbus A320 þotur og hins vegar Boeing 787-9 Dreamliner breiðþotur. Juneyao Air þjónustar fleiri en 160 flugleiðir og tengir þannig saman stórborgir í Asíu og Evrópu með stærstu stöðvar í Shanghai og Nanjing. Árið 2018 ferðuðust 18 milljónir farþega með Juneyao Air og hefur félagið verið valið á lista Skytrax yfir 5 bestu flugfélögin í Asíu.

Vorið 2017 var Juneyao Air valið fyrsta flugfélagið í Star Alliance Connecting Partner prógrammið og hefur nú hafið vildarklúbbssamstarf með Star Alliance flugfélögunum Air China, Air Canada, ANA, EVA Air, Singapore Airlines, United og Shenzen Airlines.

Isavia og Keflavíkurflugvöllur bjóða Juneyao flugfélagið velkomið í hóp þeirra flugfélaga sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli.