Hoppa yfir valmynd
20.6.2014
Fyrsta skóflustunga tekin að stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar

Fyrsta skóflustunga tekin að stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók í gær fyrstu skóflustungu að stækkun suðurbyggingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli að viðstöddum fjölda starfsmanna flugstöðvarinnar, auk fulltrúa verktaka og annarra boðsgesta. Hanna Birna tók síðan til máls ásamt forstjóra Isavia, Birni Óla Haukssyni af þessu tilefni en með auknum ferðamannastraumi til landsins er nauðsynlegt að auka afkastagetu flugvallarins.
 
Heildarstærð framkvæmdanna er 5.000 fermetra stækkun á suðurbyggingu til vesturs. Viðbyggingin mun bæta við 6 nýjum hliðum, biðsvæðum fyrir farþega og auka getu flugstöðvarinnar til þess að skipta farþegum eftir því hvort þeir koma frá löndum sem eru innan Schengen eða utan. Ástæða þess að aðskilja þarf þessa farþega er að þeir sem eru í utan Schengen þurfa að fara í gegnum landamæraeftirlit við komuna til landsins en þeir sem eru utan Schengen þurfa þess ekki. Auk þess verður svæði fyrir vopnaleit, salerni og fleiri möguleikar á verslanasvæðum til að þjónusta viðskiptavini Flugstöðvarinnar betur. 
 
Á annarri hæð viðbyggingarinnar er gert ráð fyrir að Schengen svæðið verði með biðsvæðum og verslunum. Á fyrstu hæð er gert ráð fyrir biðsvæði fyrir utan-Schengen farþega og biðsvæði fyrir rútur. Þá verður í kjallara vopnaleit og salerni auk tæknirýma.
 
Þar sem framkvæmdir við að bæta við hliðum við flugstöðina eru gríðarlega kostnaðarsamar var farin sú leið að notast við svokölluð fjarstæði, sem eru stuttan spöl frá flugstöðinni, þegar öll hliðin eru í notkun. Þá leggja flugvélar þar og farþegar eru fluttir frá þeim með farþegarútum að flugstöðinni.
Með framkvæmdinni fæst umtalsverð afkastaukning á háannatíma með lágmarksfjárfestingarkostnaði. Áætlað er að byggingin verði komin í notkun sumarið 2016.