Hoppa yfir valmynd
13.2.2024
Gerður Pétursdóttir hlýtur Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2024

Gerður Pétursdóttir hlýtur Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2024

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi voru veitt 12. febrúar við hátíðlega athöfn á Grand Hótel. Verðlaunin eru veitt árlega stjórnendum fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Gerður Pétursdóttir, fræðslustjóri Isavia, er handhafi Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi sem millistjórnandi ársins 2024. Auk hennar voru þeir Bjarni Örn Kærnested, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni hjá Isavia, og Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, einnig tilnefndir til verðlauna. 

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi  

Markmið Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi er að stuðla að aukinni fagmennsku á sviði stjórnunar á Íslandi. Einnig að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda og örva umræðu um faglega stjórnun. Veit voru verðlaun í þremur flokkum; frumkvöðull, millistjórnandi og yfirstjórnandi, auk þess sem veitt voru sérstök hvatningarverðlaun.

Gerður Pétursdóttir og Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson

Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, hélt ávarp og afhenti verðlaunin sem voru haldin í fimmtánda sinn. Hátíðin var einnig í beinu streymi sem hægt er að horfa á hér. 

Millistjórnandi ársins 

Formaður dómnefndar, Borghildur Erlingsdóttir, kynnti niðurstöður dómnefndar þegar tilkynnt var um millistjórnanda ársins. „Það sem hefur einkennt leiðtogastíl hennar er einkum umhyggja fyrir fólki og löngun til að sjá samstarfsfólk sitt vaxa og líða vel á vinnustaðnum. Hún hefur gleðina að leiðarljósi, er heiðarleg og opin. Metnaður hefur einkennt störf hennar sem stjórnandi, óhikað tekst hún á við breytingar og gerir kröfur til sín og annarra um þróun og nýsköpun,“ sagði Borghildur um Gerði Pétursdóttur, fræðslustjóra.  

Gerður Pétursdóttir, fræðslustjóri

Við móttöku verðlaunanna sagði Gerður viðurkenninguna vera sér mikil hvatning í starfi. „Ég vil þakka mínu frábæra teymi hjá Isavia skólanum. Þau hafa af hugrekki og heiðarleika gefið mér endurgjöf sem hefur hjálpað mér að vaxa sem leiðtoga. Ég vil þakka öllu samstarfsfólki mínu hjá Isavia og meðstjórnendum. Saman höfum við verði á nýrri vegferð þar sem við höfum verið að vinna með fyrirtækjamenninguna okkar og þar hef ég fengið flotta þjálfun og jafningjastuðning til að vaxa sem stjórnandi.“ 

Það hefur einkennt starfsferil Gerðar að opna nýja skóla og byggja þar menningu með áherslu á góð samskipti, persónulegan þroska og gleði.  

Handhafar árið 2024 

Handhafar Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2024 eru: Í flokki yfirstjórnenda Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf útgerðafélags í Grindavík. Í flokki millistjórnenda þau Gerður Pétursdóttir, fræðslustjóri Isavia og Sigurður Böðvarsson, framkvæmdastjóri lækninga og sjúkrasviðs hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Í flokki frumkvöðla þeir Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum og stofnandi Oculis og Þorsteinn Loftsson, prófessor í lyfjafræði og stofnandi Oculis. Sérstök hvatningarverðlaun hlaut Joanna Dominiczak, fagstjóri íslenskunáms og erlends samstarfs hjá Mímir Símenntun.