Hoppa yfir valmynd
6.9.2022
Gert ráð fyrir 6,2 milljón farþegum um Keflavíkurflugvöll í ár

Gert ráð fyrir 6,2 milljón farþegum um Keflavíkurflugvöll í ár

Uppfærð farþegaspá Isavia fyrir árið 2022 gerir ráð fyrir að 6,2 milljónir farþega muni fara í gegnum Keflavíkurflugvöll í ár, eða um það bil hálfri milljón fleiri en uppfærð farþegaspá Isavia, sem gefin var út í maí síðastliðnum, gerði ráð fyrir. Er þetta mikil aukning frá farþegaforsendum í byrjun árs þegar gert var ráð fyrir tæplega 4,6 milljón farþegum árið 2022. Þrátt fyrir hraðari fjölgun farþega en áætlað var tókst starfsfólki flugvallarins að tryggja að þjónusta við farþega gekk greiðlega fyrir sig.

„Sumarið fór fram úr væntingum okkar. Nú í vetur stefna tuttugu flugfélög að því að heimsækja okkur sem er mesti fjöldi sem hingað hefur flogið að vetri til. Það er greinilegt að Ísland heldur áfram að vera vinsæll áfangastaður fyrir ferðalanga,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia.

Á sama tíma hélt annríki sumarsins áfram á Keflavíkurflugvelli í ágúst. Samkvæmt bráðabirgðatölum má áætla að rúmlega 841 þúsund farþegar hafi farið í gegnum völlinn í ágústmánuði sem eru fleiri farþegar en á sama tíma árið 2019. Það eru tæplega 2,4 milljónir farþega í júní, júlí og ágúst í sumar samanborið við tæplega 2,5 milljónir sömu mánuði ársins 2019. Flogið var til 76 áfangastaða í ágúst og voru vinsælustu áfangastaðirnir Kaupmannahöfn, París, Boston, New York og Frankfurt.

„Þökk sé okkar frábæra starfsfólki hefur gengið vel að takast á við þessa hröðu fjölgun farþega á Keflavíkurflugvelli frá því í vor og við höfum haldið okkar þjónustustigi uppi. Farþegatölur í júlí fóru fram úr sama mánuði fyrir heimsfaraldur, rétt eins og bráðabirgðatölur benda til að hafi verið í ágúst. Meðalbiðtími í öryggisleit á Keflavíkurflugvelli hefur haldist í eða undir því viðmiði sem við setjum okkur og innritun hefur heilt yfir gengið vel þrátt fyrir miklar framkvæmdir á vellinum. Þannig skapaðist ekki það krefjandi ástand sem sagt hefur verið frá á flugvöllum víða annar staðar í heiminum. Öflugur og samhentur hópur starfsfólks á Keflavíkurflugvelli á hrós skilið fyrir vaska framgöngu við að þjónusta ferðafólk,“  segir Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar hjá Isavia.