Hoppa yfir valmynd
8.5.2010

Gífurlega mikil flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið í nótt, dag og næstu nótt

Mikill straumur flugvéla hefur verið inn á íslenska flugstjórnarsvæðið í dag og síðustu nótt, búist er við áframhaldandi mikilli umferð í nótt og á morgun. Vegna umferðarinnar sem er í meira lagi óvenuleg vegna umfangs og flækustigs hefur mönnun á flugumferðarstjórum tvöfaldast í dag og voru tuttugu og tveir á vaktinni í þegar mest var að gera. Á venjulegum degi eru um 8-10 manns sem sinna flugumferðinni á íslenska svæðinu sem er eitt stærsta úthafssvæði heims.  

Ásgeir Pálsson framkvæmdarstjóri flugumferðarsviðs Isavia (áður Flugstoðir) hóf störf árið 1975 sem flugumferðarstjóri, segist ekki ekki hafa upplifað álíka stöðu í flugmálum allan þann tíma sem hann hefur starfað við þau. "Það hafa komið upp atburðir sem hafa haft töluverð áhrif eins og t.d. 11.sept 2001 þegar loftrými Bandaríkjanna var lokað. Þá þurfti að snúa við eða breyta flugleiðum flugvéla sem voru á leið til Bandaríkjanna og koma þeim á nýja áfangastaði. En sú atburðarrás stóð í nokkrar klukkustundir ólíkt þessu ástandi sem núna er þegar við sjáum fram á að umferðin um íslenska flugstjórnarsvæðið mun halda áfram að vera mikil í nótt og á morgun. Hitt er svo annað að í upphafi  Eyjafjallagossið þá lokaði loftrýmið við flesta flugvelli í Norður Evrópu og þess vegna var lítil flugumferð á Norður Atlantshafinu, en nú þegar flugumferðin í Evrópu er nokkuð eðlileg og flestir flugvelli eru opnir lokar öskumagnið stórum hluta Norður Atlantshafsins og þá er síbreytilegt hvernig koma skal umferðinni yfir hafið og er ástandið í þeim málum mjög ólíkt venulega ástandi og því eru t.d. mönnun flugstjórnarmiðstöðvarinnar gjörólík því sem hún er annars."

Eftir daginn kemur í ljós hvað margar flugvélar komu inn á svæðið, það er ljóst að þær eru óvenjumargar.  Þriggja til fjögurra klukkutíma tafir á flugumferð á Norður Atlantshafinu hafa orðið vegna öskunnar í háloftunum í dag þar sem flugstjórnarsvæðið hefur ekki annað flugumferðinni. Allt millilandaflug á Íslandi fer nú um Akureyrarflugvöll og er búist við að sama verði upp á teningnum á morgun, einnig er Egilsstaðaflugvöllur til taks ef með þarf.