Hoppa yfir valmynd
14.5.2024
Gleði í opnunarhófi Blue Lagoon Skincare á Keflavíkurflugvelli

Gleði í opnunarhófi Blue Lagoon Skincare á Keflavíkurflugvelli

Gleði og stemning ríkti í opnunarhófi sem haldið var í tilefni af opnun glæsilegrar og endurbættrar Blue Lagoon Skincare verslunar á Keflavíkurflugvelli (KEF) þann 7. maí síðastliðinn.

Verslunin er staðsett á sama stað og áður í verslunar- og veitingarými flugvallarins en við hönnun hennar var lögð áhersla á stílhreint útlit, hlýleika og gott efnisval. „Ný verslun Blue Lagoon Skincare er glæsileg viðbót í verslunarflóruna á KEF og býður upp á framúrskarandi vöruframboð fyrir bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn. Húðvörur Bláa Lónsins eru margverðlaunaðar og þekktar um allan heim og það er frábært að áfram verði hægt að nálgast þær í flugstöðinni þar sem margir vilja gera góð kaup á fríhafnarverði, “ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga á Keflavíkurflugvelli.

Áhersla á skynræna upplifun

Blue Lagoon Skincare húðvörur hafa notið mikilla vinsælda meðal flugvallargesta í gegnum árin. Húðvörurnar byggja á 30 ára rannsóknum á einkaleyfisvörðum innihaldsefnum Bláa Lónsins og eru þekktar fyrir vísindi, virkni og sjálfbærni. BL+ húðvörulínan er nýjasta viðbót Blue Lagoon Skincare en um er að ræða öflugar formúlur sem vinna gegn öldrunareinkennum húðar, styrkja hana og örva kollagenframleiðslu.

Í versluninni er húðvörubar, þar sem gestir geta fengið sér sæti og prófað vörurnar ásamt því að fá persónulega ráðgjöf. „Við leggjum mikið upp úr skynrænni upplifun gesta okkar í versluninni og er húðvörubarinn hluti af því. Starfsfólk okkar er sérþjálfað til að aðstoða viðskiptavini við val á húðvörum sem henta þeirra húðgerð, svo við hvetjum ferðalanga til að koma við og upplifa,“ segir Eyrún Sif Eggertsdóttir, forstöðumaður verslana hjá Blue Lagoon Skincare.


Hópar velkomnir í heimsókn

Blue Lagoon Skincare býður hópa velkomna í verslanir sínar. Tilvalið er að nýta sér þessa þjónustu og hefja ferðalagið á skemmtilegri stund í verslun Blue Lagoon Skincare á Keflavíkurflugvelli. Hópurinn fær húðvörukynningu og persónulega ráðgjöf, auk annarra fríðinda.