
Greenland Express flýgur frá Akureyri til Danmerkur - Flybe flýgur allt árið
Greenland Express áformar að fljúga beint frá Akureyri til Danmerkur í júní. Flogið verður til Kaupmannahafnar og áfram til Álaborgar. Flugtímabilið verður frá 17. júní til 25. nóvember og áætlað að fljúga á miðvikudögum og sunnudögum. Bókanir hefjast í næstu viku og áætlar félagið að hafa miðaverð sambærilegt við miðaverð frá Keflavíkurflugvelli. Greenland Express leigir vél frá Hollandi af gerðinni F-100 og tekur hún 100 manns í sæti.
Þá áformar breska lággjalda flugfélagið Flybe að fljúga milli Íslands og Bretlands allt árið um kring, í stað þess að fljúga einungis yfir sumartímann, í kjölfar mikillar eftirspurnar á leið félagsins. Fyrsta flug félagsins frá Íslandi til Birmingham verður 29. Júní nk. og eftir það verður flogið þrisvar í viku (sunnudaga, þriðjudaga og föstudaga). Sumarið 2014 verður farið frá Keflavíkurflugvelli seint að kvöldi en frá og með október verður brottför um eftirmiðdaginn. Birmingham er næststærsta borg Bretlands, vel staðsett og þægilegt að komast til London, Skotlands og meginlands Evrópu.