
Gríðarleg fjölgun starfa á Keflavíkurflugvelli á næstu árum
Isavia kynnti í dag skýrslu þar sem lagt er mat á það hvaða þýðingu uppbygging Keflavíkurflugvallar hefur til framtíðar. Í henni eru dregnar saman upplýsingar um áætlanir og spár er varða framtíðaruppbygginu á Keflavíkurflugvelli og þær settar fram á aðgengilegan hátt.
„Keflavíkurflugvöllur er stóra gáttin inn í landið og mikilvægt er að vandað verði til verka við þau stækkunaráform á flugvellinum sem nauðsynleg eru til þess að hann geti staðið undir vaxandi farþegafjölda á komandi árum,“ segir Elín Árnadóttir aðstoðarforstjóri Isavia. „Með gerð þessarar skýrslu vill Isavia kveikja umræðu um uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og sýna ábyrgð í að draga fram bæði þá kosti og áskoranir sem henni fylgja.“
Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri, ræddi um framtíðaráhrif uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli

Huginn Freyr Þorsteinsson, ráðgjafi hjá Aton, ræddi tækifæri og áskoranir Íslands sem flugþjóð
Í ár er gert ráð fyrir að störfum hjá þeim fyrirtækjum sem eru með starfsemi á Keflavíkurflugvelli muni fjölga um 1.700 og um 1.100 á því næsta. Miðað við farþegaspá Isavia er síðan gert ráð fyrir að störfum fjölgi að meðaltali um 400-500 á ári til ársins 2040, og það ár muni rúmlega 16.000 manns starfa á flugvellinum. Miðað við gögn frá Alþjóðasamtökum evrópskra flugvalla er Ísland önnur mesta flugþjóð Evrópu ef horft er til beinna starfa á flugvöllum sem hlutfall af fjölda íbúa.
Fullur salur af ferðaþjónustuaðilum var á Hilton Nordica vegna kynningar á skýrslunni
Skýrslan byggir á áætlunum um uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, farþegaspá Isavia, spá um þróun í ferðaþjónustu á Íslandi og alþjóðlegum mælikvörðun. Skýrslan er unnin af ráðgjafafyrirtækinu Aton fyrir Isavia.
- Skýrsla - Keflavíkurflugvöllur — Stóriðja í stöðugum vexti. Skýrsla um hvaða þýðingu uppbygging Keflavíkurflugvallar hefur til framtíðar - Framsett í Issuu.