Hoppa yfir valmynd
17.8.2017
Hljóðmælingakerfi komið upp við Keflavíkurflugvöll

Hljóðmælingakerfi komið upp við Keflavíkurflugvöll

Nýtt og gagnvirkt hljóðmælingakerfi hefur verið sett upp við Keflavíkurflugvöll. Kerfið er opið öllum í gegnum vef Isavia og hægt er að fá upplýsingar um flug sem nýlega hefur farið um flugvöllinn auk þess sem hægt er að sækja upplýsingar aftur í tímann.

Kerfið birtir upplýsingar hljóðmæla í byggðinni í kringum flugvöllinn og er því hægt að fylgjast með hljóðstyrk frá flugumferð og fá helstu upplýsingar um flug til og frá flugvellinum. Í kerfinu er sérstakur tilkynningahnappur þar sem hægt er að senda ábendingu um flug tiltekinnar flugvélar. Með þessu móti verða ábendingar vegna flugumferðar nákvæmari og betur skráðar auk þess sem auðveldara er að greina það hvort tiltekið flug hafi farið eftir þeim flugferlum sem skilgreindir hafa verið í kringum flugvöllinn.

Sambærilegt kerfi er notað á mörgum stórum flugvöllum, til dæmis London Heathrow, Manchester flugvelli og Kaupmannahafnarflugvelli.

Vegna mikillar gagnagreiningar og sendingar gagna yfir net þá eru mælingar birtar 30 mínútum eftir flug.

Kerfið er auðvelt í notkun en notkunarleiðbeiningar og upplýsingar um kerfið er að finna hér: https://www.isavia.is/um-isavia/isavia-i-samfelaginu/umhverfismaelingar-a-kef/