Hoppa yfir valmynd
19.4.2024
Húrra Reykjavík opnar glæsilega verslun á Keflavíkurflugvelli

Húrra Reykjavík opnar glæsilega verslun á Keflavíkurflugvelli

Ein þekktasta fataverslun landsins, Húrra Reykjavík, opnar nýja verslun í brottfararsal Keflavíkurflugvallar (KEF) í vor. Verslunin mun bjóða upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir gesti á leið sinni úr landi.

Húrra Reykjavík hefur notið gífurlegra vinsælda frá upphafi og er orðin rótgróinn hluti af verslunarflóru miðborgarinnar enda kennir þar ýmissa grasa. Verslunin á KEF verður engin undantekning  en þar verður hægt að næla sér í fatnað frá vinsælum vörumerkjum á borð við Norse Projects, Carhartt WIP, Sporty & Rich, Reykjavík Roses, Crocs, Arc´teryx, Salomon og Stone Island. Vörurnar verða í boði á hagstæðu fríhafnarverði, til jafns við öll kyn.  Þá verða að sjálfsögðu seldir strigaskór í versluninni en Húrra Reykjavík hefur lengi lagt kapp á að bjóða upp á eitt besta úrval landsins af strigaskóm.

Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson, stofnendur Húrra Reykjavík.

„Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er spennandi tímabil fyrir Húrra," segir Sindri Snær Jensson, annar eigenda Húrra Reykjavík. "Við munum halda áfram að bjóða íslenskum sem erlendum viðskiptavinum vandaðan fatnað og strigaskó, allt undir áhrifum frá skandinavískri götutísku."

HAF Studio sér um hönnun verslunarinnar

Hönnun verslunarinnar er í höndum HAF Studio og mun endurspegla afslappað og hlýlegt andrúmsloft, svipað og í verslun Húrra Reykjavík á Hverfisgötu. Sérvalin tónlist mun skapa skemmtilega stemningu fyrir gesti á leið í fríið.

Með opnun þessarar nýju verslunar eykst fjölbreytileikinn enn í verslun og þjónustu á KEF, sem er sífellt mikilvægara nú þegar 21 þúsund gestir fara að meðaltali um völlinn á degi hverjum. „Við erum ánægð með að Húrra Reykjavík, sem er skemmtileg og flott verslun, bætist í hóp verslana á flugvellinum. Þetta mun án efa gera KEF að enn áhugaverðari viðkomustað fyrir gesti sem vilja gera góð kaup,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga hjá Isavia.

Húrra Reykjavík stendur framúr sem leiðandi í tísku og gæðum, frá því að herrafataverslunin opnaði árið 2014 og allt til sameiningar verslana undir sama þaki á Hverfisgötu árið 2020.