Hoppa yfir valmynd
11.5.2012
Icelandair hefur flug til Denver í Colorado

Icelandair hefur flug til Denver í Colorado

Klippt á borðann. Frá vinstri: Luis E. Arreaga sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Chris Herndon, borgarfulltrúi Denver og Chris Nevitt, forseti Borgarstjórnar Denver, Kim Day, flugvallarstjóri Denver flugvallar, Michael B. Hancock, borgarstjóri Denver, Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair og Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.

Beint áætlunarflug Icelandair til Denver í Colorado hófst 10. maí og var athöfn að því tilefni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem flugfreyjukórinn tók lagið fyrir gesti.
 
Þetta beina flug frá Íslandi hefur vakið mikla athygli í Denver og til marks um það hefur borgarstjórinn, Michael Hancock, dvalið hér á landi ásamt viðskiptasendinefnd frá því á þriðjudag. Steingrímur J. Sigfússon efnahags- og viðskiptaráðherra var meðal gesta í tilefni af þessu fyrsta flugi og mun hann jafnframt taka þátt í Íslandskynningu í Denver.
 
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair, Michael B. Hancock, borgarstjóri Denver, Luis E. Arreaga sendiherra US á Íslandi og Kim Day, flugvallarstjóri í Denver fluttu ávörp og þakkaði Birkir Hólm gestunum frá Denver kærlega fyrir mikinn og góðan stuðning við að opna þessa nýju mikilvægu flugleið félagsins til Denver. Borgarstjóri Denver sagði að strax eftir fyrsta fund með fulltrúum Icelandair hefði vaknað mikill áhugi á því að opna flugleið milli Íslands og Denver. Hann sagði áhrif þessarar nýju flugleiðar mjög mikil og það væri sér sönn ánægja að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni með Icelandair.
 

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia (að ofan) og Birkir Hólm Guðnason forstjóri Icelandair fluttu ávörp við opnun flugleiðarinnar.

„Denver í Colorado hefur áhugaverða sérstöðu og hentar starfsemi Icelandair vel. Í fyrsta lagi er á þessu svæði töluverð velmegun, menntunarstig er hátt og áhugi á náttúru og útivist er meiri en víðast hvar annars staðar í Bandaríkjunum. Við ætlum okkur því að ná fjölda ferðamanna til Íslands frá þessu svæði. Í öðru lagi er þetta spennandi áfangastaður, m.a. vegna stórbrotinnar náttúru og hinna heimsþekktu skíðasvæða í Aspen og Vail. Það gerir okkur kleyft að fljúga jafn mikið á veturna og á sumrin til Denver, sem er óvenjulegt og mjög jákvætt. Í þriðja lagi er ljóst að flug okkar, með tengingu á Íslandi, er frábær kostur fyrir þá sem þurfa að ferðast milli Denver og ýmissa Evrópuborga. Lítið sem ekkert beint flug er frá Denver til Evrópu þó svo rannsóknir sýni mikið farþegastreymi og við ætlum okkur að ná í sneið af þeirri köku“, segir Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri Icelandair.
 
Denver í Colorado er spennandi menningarborg að sumri sem vetri. Hún stendur nánast í Bandaríkjunum miðjum við rætur Klettafjalla þar sem eru einstök útivistarsvæði og einhver bestu skíðasvæði veraldar. Þar eru sólardagar yfir 300 á ári. Denver er mikil miðstöð samgangna og flugvöllurinn er sá tíundi stærsti í heimi og fimmti stærsti í Bandaríkjunum. Flugtími milli Íslands og Denver er um sjö og hálf klukkustund.
 
Denver Colorado er níunda borgin sem Icelandair flýgur áætlunarflug til í Norður Ameríku. Hinar borgirnar eru New York, Boston, Seattle, Minneapolis, Washington og Orlando í Bandaríkjunum, og Toronto og Halifax í Kanada.

Farþegar innritaðir í fyrsta flug Icelandair til Denver.