Hoppa yfir valmynd
26.11.2020
Ingibjörg Arnarsdóttir nýr framkvæmdastjóri fjármála og mannauðs hjá Isavia

Ingibjörg Arnarsdóttir nýr framkvæmdastjóri fjármála og mannauðs hjá Isavia

Ingibjörg Arnarsdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra á nýju sameinuðu sviði fjármála og mannauðs hjá Isavia. Ingibjörg hefur mikla stjórnunarreynslu á vettvangi fjármála og mannauðs. Nú síðast starfaði hún sem framkvæmdastjóri fjármála-, mannauðs- og verkefnastjórnar hjá Reiknistofu bankanna. Þar hafði hún m.a. yfirumsjón með fjármálum fyrirtækisins, mannauðsmálum og verkefnastýringu.

Þar áður starfaði hún í átta ár hjá Valitor, fyrst sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs og síðan sem framkvæmdastjóri stjórnunar- og mannauðs.

Ingibjörg er með Cand. Oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á endurskoðun og meistaragráðu í fjármálum frá Cass Business School/City University í London.

Svið fjármála og mannauðs hjá Isavia er önnur tveggja stoðeininga sem er hluti af móðurfélagi Isavia, sem annast rekstur Keflavíkurflugvallar. Sviðið sinnir þó jafnframt samstæðu Isavia í heild sinni.

„Við hjá Isavia hlökkum til að fá Ingibjörgu til starfa,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Það er ljóst að þekking hennar og reynsla, nú síðast hjá Valitor og Reiknistofu bankanna, mun koma Isavia til góða í þeim verkefnum sem framundan eru.“

Ingibjörg tekur sæti í framkvæmdastjórn Isavia og hefur störf þann 1. desember næstkomandi.