Hoppa yfir valmynd
16.1.2018
Innanlandsflug á tímamótum – morgunverðarfundur Isavia

Innanlandsflug á tímamótum – morgunverðarfundur Isavia

  • Núverandi kerfi er komið að þolmörkum – fjármagn skorið niður.
  • Staða þjónustusamninga ekki ásættanleg fyrir Isavia.
  • Breyta þurfi rekstrarformi og gera flugvelli fjárhagslega sjálfbærar einingar.
  • Innanlandsflug mikilvægt fyrir byggðir landsins.

Fullt var út úr dyrum á morgunfundi Isavia um framtíð innanlandsflugs sem haldinn var á Hótel Reykjavík Natura í morgun. Á fundinum var fjallað um mikilvægi innanlandsflugs sem hluti af almenningssamgöngukerfi og hvort kerfið væri komið að þolmörkum eins og það er.

Í erindi sínu ræddi Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, um tækifæri og vandamál í rekstri innanlandsflugs. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, fjallaði um mikilvægi innanlandsflugs fyrir byggðir landsins. Grímur Gíslason, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Air Iceland Connect, gerði að umtalsefni hvernig innanlandsflug væri hagkvæmur kostur í krefjandi umhverfi.

Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, stýrði fundinum.

Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, sagði tækifærin mörg. Innanlandsflug sé eina hraðvirka almenningssamgöngukerfið milli landshluta. Flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum eigi að geta tekið við og afgreitt 300 til 500 þúsund farþega á ári og Reykjavíkurflugvöllur nýst betur í innalands- og millilandaflugi. Almennt sé fólk sammála um að breytingar verði gerðar en ekki hafi náðst sátt um leiðir. Isavia vilji breytingar m.a. því núverandi staða þjónustusamninga sé ekki ásættanleg.

Einnig kom fram í erindi Jóns Karls að það kerfi sem væri grundvöllur innanlandsflugs á Íslandi væri komið að þolmörkum. Fjármagn hefði verið skorið niður á hverju ári og það stefndi í lokun flugvalla. Móta þurfi skýra stefnu um framtíð innanlandsflugs.

„Það eru mörg tækifæri sem hægt er að grípa til að bæta rekstur á flugvöllum á Íslandi,“ segir Jón Karl. „Við þurfum að horfa til rekstrarformsins í nágrannalöndunum til þess að tryggja framtíð innanlandsflugs á Íslandi. En fyrsta skrefið til þess er samtal um leiðir og stefnu til framtíðar.“

Jón Karl benti á að hvað Reykjavíkurflugvöll varðaði væri helsti vandi flugvallarekanda og flugrekenda einna helst ákvörðunarleysi og skortur á framtíðarsýn. Engar framkvæmdir hafi verið á vellinum í langan tíma og aðstaðan öll úr sér gengin. Þá sé farþegaþróun í innanlandsflugi ekki í samræmi við mikla fjölgun í komum erlendra ferðamanna til Íslands.

Jón Karl vék að breyttu rekstrarformi en erfitt sé að finna annað land sem hafi sama fyrirkomulag og á Íslandi hvað rekstur innanlandsflugs og flugvalla varðar. Þrjár leiðir séu færar varðandi rekstur, óbreytt fjármögnun, sama kerfi en ný fjármögnun eða nýtt kerfi. Ef farið væri í nýtt kerfi, sambærilegt og gerist í nágrannalöndunum, væru innanlandsflugvellir gerðir fjárhagslega sjálfbærir, flugvallarrekandi ætti og ræki fasteignirnar og ríkið leigði flugvallarekanda land og flugbrautir. Notendur greiddu raunkostnað við rekstur flugvalla en ríkið styrkti flugleiðir eftir pólitískri stefnu hverju sinni.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, ræddi í erindi sínu um mikilvægi innanlandsflugs fyrir byggðir landsins og framtíð þess. Hún spurði fyrir hverja innanlandsflug væri og hvort núverandi kerfi styddi við aukið flug. Hún sagði mikilvægt að ræða hvað það kosti fólk í raun að fljúga og hvort flugvellir landsins séu tilbúnir til að taka við fleira fólki.

Arnheiður sagði mikilvægt að ræða framtíðarsýn, hvort það eigi að byggja upp innanlandsflug sem samgöngukerfi eða leggja það niður. Þá ræddi hún einnig mikilvægi markaðssetningar þannig að þjónustan vaxi og dafni. Flugfélögin hafi markaðssett innanlandsflugið vel. „Isavia hefur hins vegar ekki fjármagn til að markaðssetja flugvellina. Markaðsstofa Norðurlands hefur gert það fyrir Akureyrarflugvöll og Austurblokk fyrir Egilsstaðaflugvöll. En það er skrítið að markaðssetja eitthvað sem ekki er heimild til nema með góðvild Isavia,“ sagði Arnheiður og bætti við að mikilvægt væri að markaðssetja til notenda.

Grímur Gíslason, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Air Iceland Connect, fór yfir rekstur flugfélagsins og þær breytingar sem hefðu orðið síðan 2016 þegar flugvélar af nýrri gerð voru keyptar. Síðan þá hafi félagið byrjað að fljúga til Kangerlussuaq á Grænlandi og síðan Aberdeen í Skotlandi og Belfast á Norður-Írlandi í samstarfi við Icelandair. Þá hafi flug frá Keflavík til Akureyrar hafist í febrúar 2017.

Grímur gerði að umtalsefni aðstöðuleysi á flugvöllum á Íslandi. Ástandið á Reykjavíkurflugvelli væri ekki gott sökum stefnuleysis og skort á ákvarðanatöku. Úti á landi væru flækjur í eignarhaldi.

„Hver er framtíð innanlandsflugs?“ spurði Grímur. „Það þarf að halda áfram að bæta þjónustu og þá vöru sem Air Iceland Connect hefur upp á að bjóða. Ná þarf til fleiri ferðamanna og dreifa þeim betur um Ísland.“

Að lokum gafst gestum tækifæri til að spyrja spurninga úr sal.