Hoppa yfir valmynd
25.5.2010

Isavia á Routes Europe

Dagana 9.-11. maí tóku fulltrúar Isavia ohf. og Ferðamálastofu þátt í Routes Europe sem þetta árið var haldin í Toulouse í Frakklandi.  Á Routes Europe hittast forsvarsmenn flugvalla og flugfélaga í Evrópu fyrst og fremst til að ræða möguleika á nýjum flugleiðum auk þess að fara yfir árangur á núverandi flugleiðum.  Fulltrúar frá Keflavíkurflugvelli hafa sótt Routes ráðstefnur undanfarin ár en þetta var í fyrsta skipti sem fulltrúi frá Ferðamálastofu var með í för.

Þátttakendur á Routes Europe hafa aldrei verið fleiri en í ár en þeir voru um 700 talsins og voru skipulagðir yfir þrjú þúsund fundir á meðan ráðstefnan stóð yfir.  

Óhætt er að fullyrða að mikill áhugi hafi verið á því sem er að gerast á Íslandi, bæði á mögulegum nýjum flugleiðum til landsins sem og eldgosinu. Sökum þessa var kort af Íslandi ítrekað dregið upp til að sýna hvar Eyjafjallajökull væri staðsettur og jafnframt hvað það væri lítill hluti af landinu sem hefði orðið fyrir áhrifum öskufalls.