Hoppa yfir valmynd
27.9.2018
ISAVIA AÐSTOÐAÐI VIÐ STÆRSTU FLUGSLYSAÆFINGU Í FÆREYJUM

ISAVIA AÐSTOÐAÐI VIÐ STÆRSTU FLUGSLYSAÆFINGU Í FÆREYJUM

Fulltrúar Isavia aðstoðuðu við umfangsmikla flugslysaæfingu sem haldin var í Færeyjum 19. September síðastliðinn. Um 400 manns – slökkviliðs- og björgunarfólk ásamt leikurum sem léku særða - tóku þátt í æfingunni sem fór fram á svæðinu við Vágaflugvöll. Að því er fram kom í fréttum Kringvarpsins, færeyska ríkissjónvarpsins, er þetta stærsta flugslysaæfing sem haldin hefur verið í Færeyjum.

Fulltrúar Isavia aðstoðuðu við undirbúning og framkvæmd æfingarinnar en komu einnig á vettvang til að læra af færeyskum frændum okkar og kynna sér aðferðir þær sem þeir nota við æfingar sem þessar. Það sama hafa Færeyingar gert á flugslysaæfingum Isavia á Íslandi. Stefnt er að því að halda samstarfinu áfram.

Næsta flugslysaæfing Isavia og almannavarna verður haldin á Egilsstaðaflugvelli. Hún hefst í kvöld, fimmtudaginn 27. september, og lýkur laugardaginn 29. september.