Hoppa yfir valmynd
14.6.2018
ISAVIA AFHENDIR LANDSBJÖRGU HÓPSLYSAKERRUR

ISAVIA AFHENDIR LANDSBJÖRGU HÓPSLYSAKERRUR

  • Isavia hefur afhent Landsbjörgu 9 hópslysakerrur.
  • Kerrurnar eru hannaðar af Isavia og Landsbjörgu í sameiningu.
  • Grunnbúnaður er í kerrunum til að veita skjól og aðhlynningu.
  • Kerrurnar fara á svæði á Íslandi þar sem hætta er á hópslysum og viðbragð takmarkað vegna staðsetningar.

Fimmtudaginn 14. júní lauk Isavia með formlegum hætti við að afhenda Slysavarnafélaginu Landsbjörgu hópslysakerrur, sem eru afrakstur sameiginlegs verkefnis styrktarsjóðs Isavia og Slysavarnafélagsins. Afhendingin fór fram á Reykjavíkurflugvelli.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, og Smári Sigurðsson, formaður stjórnar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, þegar hópslysakerrurnar voru afhentar á Reykjavíkurflugvelli.

Nánar um kerrurnar

Kerrurnar eru níu talsins og eru sérhannaðar af félögunum tveimur og munu stórefla hópslysaviðbúnað á Íslandi. Þær eru ætlaðar til nota á svæðum þar sem er hætta á hópslysum og viðbragð vegna staðsetningar takmarkað.

Ákveðinn grunnbúnaður er í kerrunum og miðast er við að hægt sé að veita skjól og aðhlynningu á vettvangi þar sem sjúkraflutningar og sérhæfð bráðaaðstoð þarf að fara um langan veg.

Í hverri kerru er m.a. að finna:

  • 18 sjúkrabörur
  • 30 fm tjald
  • Rafstöð
  • Hitablásara
  • 30 ullarteppi

Staðsetning hópslysakerra:

  1. Björgunarsveitin Kári í Öræfum
  2. Björgunarsveitin Stefán Mývatnssveit
  3. Björgunarfélag Ísafjarðar
  4. Björgunarsveitin Lífsbjörg Ólafsvík
  5. Björgunarsveitin Blakkur Patreksfirði
  6. Flugbjörgunarsveitin Varmahlíð
  7. Björgunarsveitin Vopni Vopnafirði
  8. Björgunarsveitin Dagrenning Hólmavík
  9. Björgunarsveitin Bára Djúpavogi

Nánar um verkefnið:

Styrktarsjóður Isavia og Slysavarnafélagsins Landsbjargar var stofnaður árið 2012 með það að markmiði að efla hópslysaviðbúnað í nágrenni flugvalla á Íslandi. Markmiðið var síðar útvíkkað og styrkjum einnig beint til svæða nálægt fjölförnum ferðamannastöðum. Frá stofnun hefur Isavia styrkt björgunarsveitir um allt land um tæplega 40 milljónir króna. Með kerruverkefninu mun Isavia styrkja sveitirnar um 36 milljónir króna til viðbótar. Áhersla Isavia er að vera ábyrgur aðili í ferðaþjónustu, fyrst var farið í að styrkja viðbúnað á og við flugvelli en síðar einnig að efla þau svæði þar sem viðbragð vegna staðsetningar er takmarkað.

Fram til ársins 2019 er það hlutverk sjóðsins að koma upp sérstökum hópslysakerrum með öllum helsta búnaði sem grípa þarf til, t.d. við rútuslys. Kerrurnar eru afhentar björgunarsveitum sem eru við fjölfarna ferðamannastaði og eru í umhverfi þar sem langt er í aðstoð annarra viðbragðsaðila. Isavia gerði samantekt á hvar þörfin væri mest og kerrum þessum forgangsraðað samkvæmt þeirri samantekt. Samstarf Isavia og björgunarsveita hefur verið farsælt um árabil en sveitirnar eru hryggjarstykkið í almannavarnarviðbúnaði landsins, þ.m.t. á flugvöllum.

Búnaðurinn í kerrunum miðast við að björgunarsveitafólk geti veitt skjól og aðhlynningu á slysstað utan alfaraleiðar á stöðum þar sem langt er í heilbrigðisþjónustu og aðrar bjargir. Við val á staðsetningu kerranna var tekið mið af fjölda ferðamanna, viðbragðsaðilum á viðkomandi svæði, áhættugreiningu almannavarna og hópslysaskýrslu Isavia.

Isavia er einn stærsti styrktaraðili Slysavarnafélagsins Landsbjargar og hefur undanfarin ár styrkt hópslysaviðbúnað björgunarsveita í kringum ferðamannastaði og flugvelli um allt land úr styrktarsjóði sínum og þannig bætt hópslysaviðbúnað mjög á þeim stöðum. Nú er gengið skrefinu lengra og hópslysaviðbúnaður efldur þar sem upp á vantar.