Hoppa yfir valmynd
27.8.2019
Isavia áfram einn af helstu bakhjörlum Ljósanætur

Isavia áfram einn af helstu bakhjörlum Ljósanætur

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, hafa undirritað samstarfssamning Isavia og Reykjanesbæjar vegna Ljósanætur. Hátíðin hefst miðvikudaginn 4. september og lýkur sunnudaginn 8. september.

Ljósanótt er nú haldin í tuttugasta sinn. Þetta er árleg hátíð í Reykjanesbæ. Boðið er upp á tónleika, sýningar og margs konar samkomur meðan á hátíðinni stendur.

Isavia er áfram einn af helstu bakhjörlum Ljósanætur. Stuðningurinn er sérstaklega tengdur heimatónleikunum vinsælu sem haldnir eru á Ljósanótt á föstudegi nú í fimmta sinn. Þá bjóða íbúar í gamla bæ Reykjanesbæjar til tónleika heima hjá sér. Allir miðar á tónleikana þetta árið seldust upp á örfáum mínútum.

Framlög Isavia eru liður í því að styðja við metnaðarfullt starf á ýmsum sviðum samfélagsins þannig að það dafni og fái að njóta sín. Í því sambandi má nefna að hátíðin í ár er sérstaklega kynnt sem „Plastlaus Ljósanótt“. Birtist það meðal annars í því að leitað er til íbúa og gesta að hafa umhverfið í huga. Sérstakt átak, „saumað fyrir umhverfið“ stendur nú yfir, en þar gefst íbúum tækifæri til að leggja sitt lóð á vegarskálarnar með því að sauma margnota poka til að nota á Ljósanótt. Þá er erlendum íbúum bæjarins veitt aukin athygli á hátíðinni. Listasafn Reykjanesbæjar hefur af því tilefni sett upp stóra sýningu á úrvali af pólskum grafíkverkum auk þess sem tónlistarmenn frá Póllandi taka þátt í dagskrá Ljósanætur.