Hoppa yfir valmynd
7.6.2010

Isavia fékk í dag verðlaun frá IATA fyrir mestu framfarir í flugumferðarþjónustu

Alþjóðasamtök flugfélaga - IATA - veittu í dag Isavia og fjórum öðrum aðilum í alþjóðlegri flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstri viðurkenningu fyrir framúrskarandi frammistöðu á síðasta ári. IATA velur Isavia að þessu sinni fyrir að hafa sýnt mestar framfarir í flugumferðarþjónustu. Isavia hefur unnið ötullega að því að bæta rekstur og þjónustu sem félagið veitir og hefur leitast við að halda niðri kostnaði. Þá er Isavia að mati IATA einnig leiðandi í að auka hagkvæmni og öryggi á flugleiðunum yfir Norður - Atlantshaf og Norðurpólinn.

Viðurkenningin nefnist Eagle Award og er veitt þjónustuaðilum í flugumferðarþjónustu og flugvallarrekstri árlega, í viðurkenningaskyni fyrir framúrskarandi þjónustu, hagkvæmni og framför í rekstri. Viðurkenningin var afhent í dag á 66. ársfundi IATA í Berlín að viðstöddum rúmlega 600 frammámönnum í alþjóðlegum flugrekstri. Þar voru Þórólfur Árnason, stjórnarformaður Isavia, Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri flugumferðarsviðs og Þorgeir Pálsson prófessor.  

Dr. Assad Kotatie formaður nefndarinnar sem afhenti viðurkenninguna sagði í dag að áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar hafi haft gríðarlega neikvæð áhrif á rekstur flugfélaga. Samstarf allra flugrekstraraðila og tengdra greina reyndist gríðarlega mikilvæg er flugfélög börðust við tekjusamdrátt af áður óþekktri stærð, alls 14,3% eða 81 milljarðar bandaríkjadala með tilsvarandi taprekstri. Verðlaunahafar þessa árs hafi tekist á við þetta viðfangsefni í anda samvinnu og samstarfs og náð framúrskarandi árangri.

Giovanni Bisignani formaður IATA sagði við sama tækifæri að kostnaður flugfélaga vegna lendingar- og flugleiðsögugjalda næmi 11% af veltu. Brýnt væri að þeir 54 milljarðar Bandaríkjadala sem félögin borga árlega skili sér í góðri þjónustu. “Verðlaunahafarnir hafa allir lagt áherslu á þarfir flugfélaganna og skiluðu frábærri og hagkvæmri þjónustu. Það er sönn ánægju að heiðra þessa fyrirmyndaraðila á mikilvægasta ársfundi í okkar starfsgrein“ sagði formaðurinn.

Isavia og starfsfólk félagsins fagna þessari mikilvægu viðurkenningu alþjóðasamtaka flugfélaga sem byggist á náinni, faglegri, tæknilegri og fjárhagslegri samvinnu við viðskiptavini félagsins.