Hoppa yfir valmynd
21.11.2014
Isavia gefur nemendum á starfsbraut Fjölbrautarskóla Suðurnesja spjaldtölvur

Isavia gefur nemendum á starfsbraut Fjölbrautarskóla Suðurnesja spjaldtölvur

Isavia veitti nýlega nemendum á starfsbraut Fjölbrautarskóla Suðurnesja sex spjaldtölvur að gjöf.  Um er að ræða spjaldtölvur að gerðinni Ipad Air ásamt viðeigandi hulstrum, en spjaldtölvurnar munu nýtast í kennslu á starfsbrautinni.
 
Alls eru 42 nemendur á starfsbraut Fjölbrautaskólans og að sögn Þórunnar Svövu Róbertsdóttur sviðsstjóra hefur skólinn verið að þróa sig áfram með notkun spjaldtölva í kennslu fyrir nemendur brautarinnar með góðum árangri.  Það hafi því komið upp hugmynd um að kaupa nokkrar slíkar spjaldtölvur til að efla kennsluna.  „Við erum mjög ánægð með að Isavia hafi séð sér fært um að gefa okkur þessar sex spjaldtölvur en það mun opna fyrir okkur nýja og spennandi möguleika á að nýta þetta kennsluform á fjölbreyttan hátt. Við erum sífellt að leita nýrra leiða fyrir nemendur okkar í námi til að tryggja að þeir nái sínum besta mögulega námsárangri.“ 
 
 
Spjaldtölvan er tæki sem nýst getur nemendum á fjölþættan hátt, sem námsgagn, boðskiptatæki, kennslutæki og skipulagstæki. Hægt er að nýta sér fjölda af margvíslegum smáforritum og verkefnum til náms og þjálfunar. Spjaldtölvur henta vel í skólastarfi vegna þess að þær eru einfaldar, aðgengilegar, færanlegar og bjóða upp á fjölbreytta og skapandi notkunarmöguleika.  Starfsbrautin hefur það markmið að vera leiðandi í breyttum kennsluháttum og nýtingu upplýsingatækni í skólastarfi. 
 
Þröstur Söring, framkvæmdastjóri flugvallarsviðs Keflavíkurflugvallar og Gunnar Sigurðsson markaðsstjóri Isavia mættu í Fjölbrautarskólann á dögunum og afhentu kennurum og nemendum á starfsbrautinni spjaldtölvurnar að gjöf.  Eins og sést á meðfylgjandi myndum var mikil ánægja með nýju Ipad spjaldtölvurnar meðal nemenda og kennara.