Hoppa yfir valmynd
2.2.2021
Isavia hefur kolefnisjafnað rúm fjögur þúsund tonn hjá Votlendissjóði

Isavia hefur kolefnisjafnað rúm fjögur þúsund tonn hjá Votlendissjóði

Alþjóðalegur dagur votlendis er haldinn 2. febrúar ár hvert og nýttur til að vekja athygli á stöðu votlendis í heiminum. Endurheimt votlendis hófst af fullum krafti á Íslandi haustið 2019 en í lok árs 2020 voru endurheimtir 203 hektarar af votlendi. Það eru 32.668 tonn af koldíoxíð sem sjóðurinn hefur til sölu á móti kolefnis jöfnun. Heildarlengd skurða þeirra jarða sem Votlendissjóðurinn  hefur endurheimt er 27 km og 390 metrar.

Isavia er eitt fyrirtækja sem hafa kolefnisjafnað starfsemi sína hjá Votlendissjóði, en það var sumarið 2019 sem Isavia skrifaði undir samning við Votlendissjóð og kolefnissjóðinn Kolvið um kolefnisjöfnun allrar eldsneytisnotkunar Isavia. Hjá Isavia höfum við það að leiðarljósi að halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni í lágmarki. Félagið setti sér umhverfisstefnu árið 2015 og hefur unnið ötullega að markmiðum stefnunnar með aðgerðaáætlun í umhverfis- og loftslagsmálum. Í áætluninni eru settar fram fjölmargar aðgerðir sem eiga að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi Isavia.

Síðastliðinn þrjú ár hefur Isavia kolefnisjafnað um 4.041 tonn hjá Votlendissjóði. Það samsvarar rúmlega 23 hekturum af framræstu og endurheimtu votlendi. Það er eitt framlag Isavia til baráttunnar við hlýnun jarðar og eflingu vistkerfa.

Áhersla hefur verið lögð á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Isavia. Losunina má rekja beint til eldsneytisnotkunar hjá félaginu. Það er fyrst og fremst bein losun frá bílum og tækjum og er unnið eftir aðgerðaráætlun þar sem fest eru kaup á umhverfisvænni kostum eins og hægt er. Lítil sem engin óbein losun gróðurhúsalofttegunda er í gegnum orkunotkun Isavia. Öll orka sem Isavia notar er frá endurnýjanlegum orkugjöfum sem valda engri eða mjög lítilli losun gróðurhúsalofttegunda. Þessu til viðbótar þá er unnið að úrbótaverkefnum með hagaðilum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda hjá öðrum aðilum tengdum starfsemi Isavia. Nánar má lesa um aðgerðir okkar í þessum efnum hér

 

„Við hjá Isavia erum gríðarlega ánægð með þann árangur sem við og Votlendissjóður höfum náð í þessum efnum á síðustu þremur árum,“ segir Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia. „Við fögnum alþjóðlegum degi votlendis og því mikilvæga verkefni sem unnið er hjá Votlendissjóði og öllum þeim aðilum um allan heim sem vinna að endurheimt votlendis náttúrunni til hagsbóta.“ 

Nánar má lesa um áherslur Isavia í umhverfismálum í árs- og samfélagsskýrslu félagsins, sem nú er einvörðungu gefin út á netinu og má nálgast hér.

Isavia hefur lagt áherslu á breyttar vinnuaðferðir til að bæta umhverfið sem við búum í. Þeirri stefnu verður haldið áfram til hagsbóta fyrir allan almenning.