Hoppa yfir valmynd
13.10.2023
Isavia hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA

Isavia hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA

Isavia hefur hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA árið 2023. Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hélt í gær stafrænu ráðstefnuna Við töpum öll á einsleitninni – Jafnrétti er ákvörðun. Þar kynnti Eliza Reid, forsetafrú, viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar. Viðurkenninguna hljóta fyrirtæki sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnun og er Isavia á meðal þeirra fyrirtækja.

Jafnvægisvogin er verkefni sem Isavia tekur þátt í ásamt FKA um að jafna hlutfall karla og kvenna í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja á Íslandi. Markmiðið er að árið 2027 verði kynjahlutfallið 40/60.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia

„Við hjá Isavia höfum lagt ríka áherslu á jafnréttismál undanfarin ár og það er okkur mikill heiður að fá viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA sem sýnir að við erum á réttri leið,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Við ætlum okkur að vera í fararbroddi sem vinnustaður þar sem jafnrétti og traust ríkir og höfum sett okkur skýra jafnréttisáætlun þar sem er stuðlað að jafnrétti í öllu okkar starfi. Í framkvæmdastjórn móðurfélags Isavia í dag er kynjahlutfallið 50/50 og ef meðtalin eru dótturfélög Isavia eru heilt yfir 5 konur og 4 karlar sem sitja í framkvæmdastjórn Isavia ohf. Við munum halda áfram að leita leiða til að tryggja fjölbreytileika bæði í hópi stjórnenda og starfsfólks og þessi viðurkenning er okkur mikil hvatning að halda þeirri vegferð áfram.“

Mannauðs- og jafnréttisstefna Isavia var uppfærð árið 2022. Þar er enn frekar lögð áhersla á jafnrétti og að allt starfsfólk fái jöfn tækifæri og möguleika. Þar er sérstaklega fjallað um að allt starfsfólk fái greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni, enda er félagið með jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins og íslenskra laga hverju sinni.

Jafnvægisvogin veitti 89 viðurkenningar í ár til fyrirtækja, sveitarfélaga og opinberra aðila úr hópi þeirra 239 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu FKA. Af því tilefni verða gróðursett 89 tré, eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa, í Jafnréttislund FKA sem Skógræktarfélag Reykjavíkur útvegaði Jafnvægisvoginni í Heiðmörk.

„Það hefur verið gaman að fylgjast með Jafnvægisvoginni stækka undanfarin ár og jafnréttismál verða að mikilvægu forgangsmáli hjá okkar þátttakendum. Þátttakendur taka stoltir við viðurkenningu og hafa verið duglegir að vekja athygli á jafnréttismálum innan sinna vinnustaða með ýmsum hætti,” segir Bryndís Reynisdóttir, verkefnastjóra Jafnvægisvogarinnar.

Isavia ohf. og FKA undirrituðu árið 2020 samstarf til fimm ára sem felur í sér að Isavia mun heita því að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar. Isavia mun leggja verkefninu lið í öflun á áreiðanlegum upplýsingum og taka þátt í könnunum til að komast betur að því hver staða mála er í þessum efnum. Þá mun félagið einnig taka þátt í einstökum viðburðum tengdum Jafnvægisvoginni.

Tilgangur Jafnvægisvogarinnar er margþættur: 

  • Að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.
  • Að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.
  • Að veita viðurkenningar og draga fram í sviðljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar.
  • Að standa fyrir viðburðum og fræðslu og vekja samfélagið til hugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis.
  • Að taka saman heildræna stöðu og niðurstöðu greininga á stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og birta niðurstöðu.