Hoppa yfir valmynd
13.11.2014
Isavia leiðandi í Evrópu með nýstárlega flugleiðsögutækni

Isavia leiðandi í Evrópu með nýstárlega flugleiðsögutækni

Isavia fagnaði stórum áfanga 6. nóvember sl. þegar félagið tók í notkun nýja flugleiðsögutækni sem ætlað er að leysi ratsjár af hólmi við flugumferðarstjórn. Nýja kerfið nefnist Automatic Dependent Surveillance-Broadcast (ADS-B) og er Ísland með fyrstu löndum í heiminum til að hefja rekstur kerfisins í yfirflugi og það fyrsta í Evrópu.

Flugvélar með ADS-B búnað senda í sífellu frá sér upplýsingar um staðsetningu úr staðsetningarkerfi sínu, kallmerki, upplýsingar um hæð, hraða o.fl. Jarðstöðvar sem staðsettar eru á fjöllum víða um landið nema merkin og senda áfram til flugstjórnarmiðstöðvarinnar í Reykjavík þar sem upplýsingarnar birtast flugumferðarstjóra líkt og ratsjárgögn.

Íslenska flugstjórnarsvæðið nær yfir 5,4 milljón ferkílómetra svæði frá vestanverðu Grænlandi, norður á Norðurpól, suður fyrir Ísland og langleiðina austur til Noregs. Hlutfall flugvéla sem nýta ADS-B-þjónustu hefur aukist jafnt og þétt á undaförnum árum. Segja má að þegar geti flestallar áætlunarflugvélar sem leggja leið sína um íslenska flugstjórnarsvæðið nýtt sér þessa nýju þjónustu.

Kostir ADS-B umfram ratsjárgögn eru að upplýsingar um staðsetningu flugvéla eru nákvæmari og berast örar, þ.e. á 0,5 – 2 sekúndna fresti en ratsjármerki á 5 – 12 sekúndna fresti. Þá er móttökubúnaður ódýrari en ratsjár og honum má koma fyrir miklu víðar sem leiðir til sparnaðar hjá Isavia og hagræðingar fyrir flugrekendur. Kerfið virkar mjög vel á afskekktum svæðum og í fjalllendi þar sem ratsjár ná ekki til. Það mun einnig geta nýst til þess að leiðbeina flugvélum í aðflugi og akstri á flugvöllum þegar fram líða stundir. Stefnt er að því að innleiðingu ADS-B verði lokið á heimsvísu árið 2025.

Mynd sem sýnir ratsjárdrægni:

Mynd sem sýnir ADS-B drægni, ný flugleiðsögutækni:

Eftirtaldar átta jarðstöðvar taka við ADS-B merkjum hér á landi og stefnt er að innleiðingu kerfisins í Færeyjum og Grænlandi síðar í vetur.

  • Bláfjöll austan Reykjavíkur
  • Reykjanesviti á Bæjarfelli
  • Bolafjall á Vestfjörðum
  • Þverfjall á Vestfjörðum
  • Viðarfjall við Þistilfjörð
  • Gunnólfsvíkurfjall við Bakkaflóa
  • Háöxl við Fagurhólsmýri
  • Háfell við Vík í Mýrdal

Innleiðing ADS-B stækkar umtalsvert þau svæði þar sem beita má minni aðskilnaði og koma fleiri flugvélum fyrir líkt og með ratsjárstjórnun. Rekstrarhagkvæmni flugfélaga eykst með því að flugvélar geta valið hagkvæmari flugferla og hæðir sem styttir flugtíma og dregur úr eldsneytiseyðslu og þar með CO2 útblæstri. Á Íslandi og í Færeyjum, þar sem ratsjár eru fyrir hendi, þýðir viðbót ADS-B aukna nákvæmni í kögunarþjónustu og og meira öryggi.

Á Grænlandi mun tilkoma tækninnar aftur á móti umbylta flugumferðarþjónustu þar sem unnt verður að fylgjast með ferðum flugvéla á stórum svæðum sem ratsjár ná ekki til. Samhliða uppsetningu ADS-B jarðstöðva í Grænlandi er settur upp fjarskiptabúnaður sem tryggir bein samskipti flugumferðarstjóra við flugvélar.