Hoppa yfir valmynd
6.4.2022
Isavia og Amadeus í samstarf um innritunar- og farangurslausnir fyrir Keflavíkurflugvöll

Isavia og Amadeus í samstarf um innritunar- og farangurslausnir fyrir Keflavíkurflugvöll

Isavia og spænska upplýsingatæknifyrirtækið Amadeus hafa ráðist í breytingar á innritunar- og farangurslausnum á Keflavíkurflugvelli sem fela í sér að skýjavæða innritunarferilinn á vellinum. Þannig gefst tækifæri til nánara samstarfs á milli flugvallarins og flugfélaga sem þar starfa sem hafa mun í för með sér umtalsverðar umbætur á upplifun farþega. Sem dæmi má nefna innleiðingu rafrænna greiðslna og nýja sjálfsinnritun og farangursafhendingu sem mun skila sér í auknum sveigjanleika fyrir farþega.

Með því að færa sig úr eldra, samþættu hugbúnaðarumhverfi yfir í Amadeus Flow, sem er ein heildarskýjalausn sem nær til allra þátta farþegavinnslu, mun Isavia geta horfið frá núverandi kerfum sínum og rekið farþegaþjónustu sínu að fullu í skýinu. Þetta þýðir að nú geta flugfélög boðið upp á valkosti á borð við innritun og farangursmiðaprentun utan flugvallar, þar sem boðið er upp á þjónustu á lykilstöðum á borð við miðborgir, samgöngumiðstöðvar eða hótel.

Allar þjónustustöðvar fyrir farþega á Keflavíkurflugvelli munu færast yfir í skýjalausn Amadeus, þar á meðal yfir 130 innritunarborð ásamt 50 nýjum sjálfsinnritunarstöðvum og 25 nýjum, sjálfvirkum töskuafhendingarstöðvum frá ICM Airport Technics sem er fyrirtæki í eigu Amadeus.

Sem tækniþjónustuaðili Keflavíkurflugvallar og stærsta flugfélagsins sem þar starfar, Icelandair, hyggur Amadeus á ýmsar uppfærslur sem bæta munu samstarf beggja fyrirtækja í daglegum rekstri. Til að mynda verður töskuskeytakerfi Amadeus tekið í notkun á Keflavíkurflugvelli en Icelandair notar nú þegar það kerfi svo nú munu bæði flugfélagið og flugvöllurinn vinna með sömu gagnaveitu sem mun skila sér í betri umsýslu farangurs.

Bjarni Sigurðsson, forstöðumaður notendaþjónustu hjá Isavia: „Kjarninn í þessu verkefni snýst um að hafa sveigjanleika til nánara samstarfs við þau flugfélög sem við vinnum með til að geta boðið farþegum upp á betri upplifun. Gott dæmi um það eru greiðslur. Okkur hefur langað til að geta komið til móts við óskir ferðamanna um að taka við greiðslum við innritun í nokkurn tíma.“

Yannick Beunardeau, aðstoðarforstjóri Airport IT and Airline Operations, EMEA, hjá Amadeus: „Þar sem mikill meirihluti farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll fljúga með flugfélögum sem nota kerfi frá Amadeus getur þetta verkefni boðið upp á ótalmargar nýjungar í upplifun farþega. Við ætlum okkur að ganga lengra en áður í tæknilegu samstarfi flugfélaga og flugvallar og allir hlutaðeigandi hafa í hyggju að prófa, læra og skila af sér betri ferðum. Rekstur í sameiginlegri skýjaþjónustu opnar fyrir möguleika á fjölda nýjunga í þjónustu við farþega.“

Það var í byrjun árs 2021 sem farið var í útboðsverkefni fyrir innritunar- og farangurslausnir og lá niðurstaðan fyrir í byrjun þessa árs. Flutningurinn yfir í nýja kerfið er nú þegar hafinn en skiptin yfir í Amadeus Flow munu eiga sér stað í skrefum. Um páskana verður byrjað að skipta um útstöðvar á innritunarborðum og hliðum. Í maí er svo von á fyrstu Kioskunum, og sjálftöskuafhendingarstöðvarnar koma svo með haustinu. 

Frétt Amadeus um málið.