Hoppa yfir valmynd
19.10.2010

Isavia og Landhelgisgæslan gera með sér samning

Þann 5. október sl. gaf dóms- og mannréttindaráðuneytið út reglugerð nr.752/2010 um stjórnun leitar- og björgunaraðgerða á leitar- og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara.   Reglugerðin er staðfesting á fyrirkomulagi sem gilt hefur um áratuga skeið um leit og björgun sjófarenda en nú er Landhelgisgæslan einnig að taka við leitar- og björgunarþættinum vegna loftfara.  

Sameinuð sjóbjörgunar- og flugbjörgunarstjórnstöð Landhelgisgæslunnar heitir JRCC-Ísland en hún sinnir jafnframt hlutverki vaktstöðvar siglinga.  Í reglugerðinni er kveðið á um samstarf Landhelgisgæslunnar við aðra björgunaraðila í landinu vegna sjóbjörgunar og flugbjörgunar.

Í dag gerðu Landhelgisgæslan og Isavia ohf.samstarfssamning þar sem Isavia sér um flugleiðsöguþjónustu þar með talið viðbúnaðarþjónustu (alerting post) vegna loftfara og kemur boðum til Landhelgisgæslunnar þegar loftfar er í hættu statt eða þess er saknað.  Isavia veitir Landhelgisgæslunni einnig þjálfun og ráðgjöf vegna leitar- og björgunarþjónustu við loftför.  Landhelgisgæslan og Isavia eru samstarfsaðilar varðandi leitar- og björgunaræfingar á íslenska leitar- og björgunarsvæðinu.
(Frétt tekin af vef Landhelgisgæslunnar).