Hoppa yfir valmynd
14.4.2020
Isavia og Landsspítalinn í samstarf

Isavia og Landsspítalinn í samstarf

Eins og allir vita hefur álag á Landsspítalann verið gríðarlega mikið undanfarnar vikur eftir að COVID-19 faraldurinn náði fótfestu á Íslandi. Nýlega leitaði Landsspítalinn eftir samstarfi við Isavia um aðstoð við öryggisgæslu og fleiri þætti sem krefjast þeirrar sérþekkingar sem fjölmargt starfsfólk okkar hafa. Okkar fólk tók auðvitað vel í þessar umleitanir enda ljóst að margt starfsfólk okkar sem fengið hefur viðeigandi þjálfun geti sinnt þessari þjónustu á meðan lítið er um verkefni í tengslum við Keflavíkurflugvöll. Margt starfsfólk Landsspítalans eru að sama skapi orðið þreytt á langvarandi álagi og því var þetta samstarf og innspýting afar kærkomin inn í starfsemi spítalans að sögn forsvarsmanna hans.


Nú hafa 9 starfsmenn úr flugverndardeild Isavia á Keflavíkurflugvelli hafið störf hjá Landsspítalanum við öryggisgæslu bæði á starfsstöð spítalans í Fossvogi og eins á Hringbraut, eftir að hafa hlotið þjálfun hjá starfsfólki spítalans. Samningurinn er sá að starfsfólk heldur sínum kjörum hjá Isavia og vinna eftir fyrirkomulagi sem hefur verið samið um milli Landsspítalans og Isavia. Öll þau úr hópi starfsfólks Isavia sem leitað var til vegna þessa verkefnis segjast mjög jákvæð fyrir þessu verkefni og eins því að geta lagt spítalanum lið á þessum erfiðu tímum. Þá er einnig verið að skoða það að starfsfólk Isavia manni vöruhús Landsspítalans að Tunguhálsi, en ekkert hefur þó verið ákveðið í þeim efnum.


Það er okkur mikið ánægjuefni að geta lagt okkar af mörkum fyrir heilbrigðiskerfið á þessum miklu álags og óvissutímum. Einnig er það gleðilegt að horft sé til starfsfólks okkar hjá Isavia til að vinna að svo mikilvægum verkefnum og er það staðfesting á því góða starfi sem unnið hefur verið af starfsfólki okkar síðustu ár.