Hoppa yfir valmynd
7.2.2012
Isavia og Sandgerðisbær gera samkomulag um björgunar-, slökkviliðs- og eldvarnarmál

Isavia og Sandgerðisbær gera samkomulag um björgunar-, slökkviliðs- og eldvarnarmál

F.v.: Ómar Sveinsson framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar, Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, Sigrún Davíðsdóttir, bæjarstjóri og Óli Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis.

Isavia og Sandgerðisbær hafa undirritað samkomulag um framtíðarskipan björgunar-, slökkviliðs- og eldvarnamála á starfssvæði Isavia á Keflavíkurflugvelli. Sandgerðisbær mun frá 1. mars nk. sinna slökkviliðsmálum og brunavörnum í öllu sveitarfélaginu sem nær yfir stóran hluta af starfssvæði Isavia á Keflavíkurflugvelli í samræmi við lög um brunavarnir. Starfsemi Isavia mun einskorðast við björgunar- og slökkviþjónustu í flugvélum í samræmi við loftferðalög og reglur sem settar eru á grundvelli þeirra. Það er vilji beggja aðila að standa vel að þeim breytingum sem samkomulagið felur í sér og munu þeir gera áætlanir um gagnkvæma aðstoð í slökkviliðsmálum. Samkomulagið var undirritað á skrifstofu Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sl. föstudag að viðstöddum bæjarfulltrúum Sandgerðis og fulltrúum Isavia. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia kynnti viðamikil umsvif félagsins og lýsti ánægju félagsins með samkomulagið.