Hoppa yfir valmynd
14.11.2016
Isavia og Slysavarnarfélagið Landsbjörg stórefla hópslysaviðbúnað

Isavia og Slysavarnarfélagið Landsbjörg stórefla hópslysaviðbúnað

Á næstu þremur árum munu Isavia og Slysavarnafélagið Landsbjörg sameinast um að bæta verulega búnað sem auðveldar björgunarsveitum víða um land að bregðast við hópslysum sem hugsanlega verða á þjóðvegum landsins, utan alfaraleiðar eða við vinsæla ferðamannastaði.
 
Samkvæmt samningi sem undirritaður var í höfuðstöðvum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á dögunum verða útbúnar sérstakar kerrur með sérhæfðum búnaði sem björgunarsveitir geta með lítilli fyrirhöfn tekið með sér á slysstað. Isavia leggur 12 milljónir króna á ári til verksins, samtals 36 milljónir króna.
 
Slysavarnafélagið Landsbjörg sér um að velja búnaðinn, hanna kerrurnar og velja þeim stað miðað við hugsanlega hættu á hópslysum og þar sem viðbragð er takmarkað.
 
Búnaðurinn í kerrunum miðast við að björgunarsveitafólk geti veitt skjól og aðhlynningu á slysstað utan alfaraleiðar á stöðum þar sem langt er í heilbrigðisþjónustu og aðrar bjargir. Við val á staðsetningu kerranna verður tekið mið af fjölda ferðamanna, viðbragðsaðilum á viðkomandi svæði, áhættugreiningu almannavarna og hópslysaskýrslu Isavia. 
 
„Björgunarsveitirnar eru með starfsstöðvar víða um land og eru oft fyrstu viðbragðsaðilar á vettvang slysa utan alfaraleiðar og því tilvalinn samstarfsaðili í verkefni sem þetta,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.
 
Framlag Isavia nær til hönnunar og smíði kerranna og til kaupa á þeim búnaði sem í þeim er. Annar kostnaður til til fellur, svo sem  ferðakostnaður, kostnaður vegna vinnu og skipulagningu verkefnisins verður greiddur af Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Isavia, eftir því hvar kostnaðurinn verður til. 
 
„Íslendingar eru illa undir það búnir að takast á við hópslys utan alfaraleiða. Aukin umferð skapar mikla ógn og því er þetta framlag Isavia afar veigamikið fyrir okkur og björgunarsveitirnar sem ekki hafa átt þess kost að koma sér upp búnaði eins og þeim sem fjárveiting Isavia gerir okkur nú kleift að eignast,“ segir Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar. 
 
Isavia er einn stærsti styrktaraðili Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og hefur undanfarin ár styrkt hópslysaviðbúnað björgunarsveita í kringum ferðamannastaði og flugvelli um allt land úr styrktarsjóði sínum og þannig bætt hópslysaviðbúnað mjög á þeim stöðum. Nú er gengið skrefinu lengra og hópslysaviðbúnaður efldur þar sem upp á vantar. Isavia vill með þessum aðgerðum lyfta grettistaki í hópslysaviðbúnaði björgunarsveita landsins á næstu þremur árum. 
 
Gert er ráð fyrir því að útbúnar verði þrjár til fjórar kerrur á ári og þær fyrstu verði tilbúnar á vordögum 2017.