Hoppa yfir valmynd
27.11.2017
Isavia óskar eftir frestun réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndar upplýsingamála

Isavia óskar eftir frestun réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndar upplýsingamála

Isavia hefur óskað eftir frestun réttaráhrifa nýlegs úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Úrskurðurinn snýr að gögnum sem Isavia afhenti Kaffitári og fjalla um valferli á verslunar- og veitingasvæði á Keflavíkurflugvelli. Óskað er eftir frestuninni svo unnt sé að bera undir dómstóla mismunandi afstöðu úrskurðarnefndarinnar og Samkeppniseftirlitsins og ágreining um afhendingu gagna.

Afhending og móttaka gæti stangast á við samkeppnislög

Úrskurðarnefndin telur Isavia hafa strikað yfir gögn sem ekki séu viðkvæmar viðskiptaupplýsingar og telur því að birta ætti Kaffitári nokkrar af þeim upplýsingum sem strikað hafði verið yfir. Upplýsingarnar sem strikað var yfir í gögnunum sem afhent hafa verið eru hins vegar að mati Isavia viðkvæmar samkeppnisupplýsingar sem til dæmis tveimur kaffihúsum í samkeppni væri ólöglegt að deila sín á milli og slík deiling myndi teljast til ólöglegs samráðs. Ef gögnin eru þess eðlis er það jafnólöglegt fyrir Isavia sem þriðja aðila að deila þessum upplýsingum á milli samkeppnisaðila. Samkeppniseftirlitið hefur fengið gögnin til yfirferðar og bent á að bæði afhending og móttaka gagnanna geti stangast á við samkeppnislög. Mat Isavia á úrskurðinum er því að úrskurðarnefnd upplýsingamála hafi ekki tekið til greina afstöðu félagsins m.a. til þess hvað teljist viðkvæmar upplýsingar á grundvelli samkeppnislaga.

Mikilvægt fyrir valferli framtíðar að skýr niðurstaða fáist

Einnig er það mjög mikilvægt að skýr niðurstaða fáist í málið vegna fyrirkomulags valferlis í framtíðinni. Fyrirkomulagið sem byggt var á er notað á flugvöllum víða í Evrópu og hefur gefið góða raun. Isavia fékk þekkt erlent ráðgjafafyrirtæki, sem stýrt hefur sambærilegu valferli á fjölda flugvalla, til ráðgjafar og var fulltrúi þess í valnefndinni sem lagði mat á þær upplýsingar sem þátttakendur sendu inn. Ef niðurstaðan verður að öll þau viðkvæmu viðskiptagögn, sem fyrirtækin skiluðu inn, verði talin opinber gögn, er ljóst að það gæti haft neikvæð áhrif á þátttöku í sambærilegu valferli síðar.

Hundraða milljóna munur á hæsta og lægsta tilboði

Meginástæðan fyrir valferli er að fá sem flestar umsóknir og samkeppni um þjónustu í flugstöðinni og sem mestar tekjur til Isavia. Tekjur af verslunar- og veitingasvæði eru Keflavíkurflugvelli gríðarlega mikilvægar og skipta miklu um þær stækkunarframkvæmdir sem fyrirsjáanlegar eru næstu árin. Niðurstaða dómnefndar í forvalinu voru þær að Kaffitár lenti í fimmta sæti af fimm í sínum flokki og hefði það verið óábyrgt og ekki í takt við forsendur valsins að ganga til samninga við þann aðila sem fékk lægsta einkunn. Tekjumunurinn á milli þess sem var valinn og Kaffitárs skipta hundruðum milljóna á samningstímanum.