Hoppa yfir valmynd
26.6.2012
Isavia styður rannsóknir í Háskóla Íslands

Isavia styður rannsóknir í Háskóla Íslands

Háskóli Íslands og Isavia hafa gert með sér samstarfssamning um stuðning Isavia við rannsóknir meistara- og doktorsnema við Háskóla Íslands sem m.a. geta tengst flugi og flugtengdri starfsemi. Samninginn undirrituðu Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, miðvikudaginn 30. maí sl.

Isavia mun leggja 25 milljónir króna í sjóð sem Háskóli Íslands mun nýta til að styrkja stúdenta sem vinna að lokaverkefnum í doktors- og meistaranámi sem geta tengst flugi og flugtengdri starfsemi. Fjárhæðinni verður ráðstafað til háskólans á árunum 2012-2014. Þessi veglegi stuðningur Isavia gerir Háskóla Íslands kleift að styðja nemendur á næstu árum í framhaldsnámi til rannsókna sinna og er reiknað með að fyrstu styrkjunum verði úthlutað 2013.

Isavia annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi og stýrir jafnframt flugumferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu sem áður var á hendi opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar og þar áður Flugmálastjórnar Íslands og Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar.

Kerfisverkfræðistofa Háskóla Íslands og Isavia, og forverar félagsins, hafa átt í rannsóknarsamstarfi á sviði flugstjórnarmála í um tvo áratugi. Samstarfið hefur m.a. leitt af sér stofnun fyrirtækisins Tern Systems sem sinnir rannsóknum og þróun hugbúnaðar á sviði flugstjórnar og flugleiðsögutækni. Félagið, sem stofnað var árið 1997, hefur haslað sér völl á heimsmarkaði en helsti hvatamaður að stofnuninni var dr. Þorgeir Pálsson, fyrrverandi flugmálastjóri og síðar forstjóri Flugstoða.

Á fundi rektors og forstjóra Isavia þann 30. maí var einnig undirritaður samningur um kaup Isavia á hlut Háskóla Íslands í Tern Systems og verður Isavia eini eigandi félagsins eftir það.