
Isavia styrkir margvíslega starfsemi um allt land
Íþróttabandalag Akureyrar tók við styrk úr samfélagssjóðnum úr hendi Hjördísar Þórhallsdóttur umdæmisstjóra Isavia á Norðurlandi við hátíðlega athöfn í Flugsafni Íslands á Akureyrarflugvelli. Styrkurinn mun nýtast vel í það fjölbreytta starf sem unnið er innan vébanda ÍBA.
Fjöldi verkefna um allt land naut góðs af haustúthlutun styrktarsjóðs Isavia. Sjóðurinn veitti styrk til íþróttastarfs barna og unglinga á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi auk þess sem fjölbreytt önnur verkefni hlutu styrk, meðal annars má nefna ferðastyrki til hjartveikra barna í sumarbúðir á Norðurlöndum, styrki til dreifingar á fræðsluefni um einelti á leikskólastigi, styrki til kaupa á píanói sem ætlað er til raddþjálfunar Parkinsons sjúklinga og styrkur til að halda Fest Afrika á Íslandi. Einnig var veittur styrkur til ráðstefnuhalds Future Fiction en ráðstefnan hefur það að markmiði að fjalla um tækifæri og möguleika á Miðnesheiði eftir að starfsemi herstöðvarinnar var lögð niður.
Verkefnin sem hlutu styrk voru:
- Neistinn styrktarfélag hjartveikra barna
- Parkinson samtökin á Íslandi
- Aðalheiður Sigurðardóttir – Ég er Unik, fyrirlestrar um einhverfu
- Afrika Lole – styrkur til þess að halda Fest Afrika
- Harpa Lúthersdóttir og Leikskólar Rekjanesbæjar – fræðsluefni um einelti undir heitinu Viltu vera memm.
- Skátafélagið Heiðabúar – styrkur til kaupa á búnaði
- Future fiction – styrkur til ráðstefnuhalds Ásbrú.
- Héraðssamband Vestfirðinga – styrkur til íþróttastarfs barna og unglinga
- Héraðssamband Bolungarvíkur – styrkur til íþróttastarfs barna og unglinga
- Íþróttabandalag Akureyrar – styrkur til íþróttastarfs barna og unglinga
- Ungmenna- og íþróttasamband Egilsstaða – styrkur til íþróttastarfs barna og unglinga
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia og Þröstur Söring, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar veittu fjölbreyttum verkefnum styrki á Keflavíkurflugvelli.
Jörundur H. Ragnarsson umdæmisstjóri Isavia á Austurlandi veitti styrk til Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands. Börnin tóku styrknum fagnandi og veitingunum einnig.