Hoppa yfir valmynd
21.1.2013
Isavia styrkir rannsóknir á sviði flugsamgangna í HR

Isavia styrkir rannsóknir á sviði flugsamgangna í HR

Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs HR, Kristine Helen Falgren, fulltrúi iðnaðar- atvinnulífstengsla hjá HR, Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia og Ingunn Ólafsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu yfirstjórnar Isavia
Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs HR, Kristine Helen Falgren, fulltrúi iðnaðar- atvinnulífstengsla hjá HR, Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia og Ingunn Ólafsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu yfirstjórnar Isavia.

Háskólinn í Reykjavík (HR) og Isavia ohf. (Isavia) hafa gert samstarfssamning sem felur í sér stuðning Isavia við rannsóknir við HR á sviði flugsamgangna, einkum flugleiðsögu og flugvallarreksturs. Meginmarkmið samningsins er að byggja upp öfluga þekkingarmiðstöð á sviði flugsamgangna á Íslandi, í samvinnu við erlenda háskóla og innlenda hagsmunaaðila.
 
Háskólinn í Reykjavík er öflugasti tækniháskóli landsins, hvort sem litið er til nemendafjölda eða rannsóknarframlags. HR áformar enn öflugri rannsóknir á sviði verkfræði, tæknifræði, viðskiptafræði, aðgerðargreiningar og tölvunarfræði. Rannsóknarverkefni á sviði flugleiðsögu og flugvallareksturs, auk annarra sviða sem tengjast starfsemi Isavia, falla mjög vel að þessum markmiðum háskólans.
 
Isavia og fyrirrennarar félagsins hafa um árabil verið leiðandi í rannsóknum á sviði flugsamgangna og innviða þeirra ásamt því að hafa leitt umfangsmikla þróunarstarfsemi í flugleiðsögutækni.
 
Björn Óli Hauksson:
„Isavia er hátæknifyrirtæki í þjónustu við flugsamgöngur og öflugt fyrirtæki á sviði ferðaþjónustu sem reiðir sig að stærstum hluta á flugsamgöngur til og frá landinu. Ég er viss um að stuðningur félagsins verði til þess að styrkja starfsemi Isavia og efla enn frekar þær rannsóknir sem eru stundaðar á grundvelli samvinnu Isavia og Háskólans í Reykjavík, auk þess að veita  kennurum og nemendum aukin tækifæri til að tengjast starfsemi Isavia.“
 
Ari Kristinn Jónsson:
„Fáar þjóðir eiga eins mikið undir góðum flugsamgöngum og Íslendingar og sífellt eru að opnast ný tækifæri vegna nýrrar tækni, nýrra viðskiptatækifæra og breytinga á lögum og samningum. Háskólinn í Reykjavík leggur áherslu á menntun og rannsóknir í tækni, viðskiptum og lögum, en hann útskrifar tvo nemendur af þremur sem ljúka tækninámi á háskólastigi á Íslandi, helming þeirra sem ljúka viðskiptanámi og þriðjung þeirra sem ljúka laganámi. HR hefur alla tíð byggt á virku samstarfi við atvinnulíf og samfélag og því er það okkur mikil ánægja að tryggja með þessum samningi öflugt samstarf við Isavia næstu árin og við hlökkum til að vinna áfram með þeim að framþróun flugsamgangna.“