Hoppa yfir valmynd
23.2.2018
Isavia styrkir RKÍ um kaup á fjöldahjálparkerrum

Isavia styrkir RKÍ um kaup á fjöldahjálparkerrum

Isavia og Rauði krossinn á Íslandi hafa gert með sér samstarfssamning um kaup á a.m.k. 7 fjöldahjálparkerrum sem staðsettar verða í öllum landshlutum.

Isavia rekur flugvelli víða um land og ber að tryggja viðbúnað vegna flugslysa á og við flugvelli. Rauði krossinn sinnir m.a. fjöldahjálp í almannavarnartilfellum og ef flugslys verða gegnir Rauði krossinn lykilhlutverki í uppsetningu fjöldahjálparstöðva og almennri umönnun þolenda. Það er því markmið samstarfssamningsins að auka enn betur viðbúnað ef upp koma alvarleg flugatvik.

Fjöldahjálparkerrur innihalda ýmsan búnað til að hlúa að þolendum á neyðartímum s.s. bedda, teppi, mat, rafstöðvar, leikföng, skyndihjálparbúnað, verkfæri o.m.fl.

„Samstarf Rauða krossins og Isavia hefur verið gott. Isavia fagnar því að geta stutt Rauða krossinn með þessum hætti, en hann er mikilvægur aðili í flugslysaáætlunum um allt land. Hlutverk RKÍ er að sinna óslösuðum og fjölskyldum þeirra og koma þeim til aðstoða og fjöldahjálparkerrurnar gera þeim enn frekar mögulegt að vinna það mikilvæga starf,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.

„Það er gríðarlega mikilvægt að hafa búnað til staðar í öllum landshlutum ef upp koma náttúruhamfarir, flugatvik eða önnur fjöldaslys. Við vonum að við þurfum að nota þessar fjöldahjálparkerrur sem minnst, en það er gott að hafa þær tilbúnar ef á reynir og Rauði krossinn er afar þakklátur fyrir samstarfið við Isavia“ segir Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri innanlandssviðs Rauða krossins.