Hoppa yfir valmynd
27.6.2019
Isavia tekur þátt í samstarfi um land við Keflavíkurflugvöll

Isavia tekur þátt í samstarfi um land við Keflavíkurflugvöll

Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, hefur undirritað viljayfirlýsingu um samstarf um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Auk Isavia undirrituðu Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og fulltrúar Reykjanesbæjar og Suðurnesbæjar yfirlýsinguna.

Fram kemur í yfirlýsingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að viljayfirlýsingin sé undirrituð í ljósi vaxtar í ferðaþjónustu og flugstarfsemi samfara mikilli uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, sem hafi gjörbreytt stöðu atvinnumála, vinnumarkaðar og samfélags í nágrenni flugvallarins. Þrátt fyrir tímabundinn samdrátt í flugi og ferðaþjónustu sé þess að vænta að sú þróun haldi áfram næstu ár og áratugi. Örar breytingar þýði að móta þurfi nýja sýn á framtíð og þróun svæðisins en land í nágrenni flugvallarins sé verðmætt og fyrirséð að verðmæti þess aukist enn frekar.

Í yfirlýsingunni sem undirrituð var segir að gott skipulag sé forsenda þess að hægt verði að hámarka samfélagslegan ábata af nýtingu landsins. Tryggja þurfi heildstætt skipulag og að landið verði nýtt með sem bestum hætti, óháð mörkum skipulagssvæða sveitarfélaga og Keflavíkurflugvallar. Efnt er til formlegs samstarfs, landið sem það tekur til afmarkað og haldin samkepni um skipulag, landnýtingu og þróun svæðisins. Í framhaldinu verður unnið skipulag og þróunaráætlun fyrir svæðið.

„Það er fagnaðarefni að samkomulag hafi tekist um samvinnu í þessu stóra máli,“ segir Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia. „Við hjá Isavia höfum lengi séð tækifæri í því að byggja upp sterkt samfélag sem nýtir nálægð flugvallarins.  Keflavíkurflugvöllur er í dag með flug á um 74 áfangastaði og það þjónar ekki bara ferðaþjónustunni og okkur sem samfélagi, heldur opnar það markaðstækifæri fyrir íslenska framleiðslu og íslenskt hugvit til útflutnings.  Við höfum lagt mikla áherslu á góða samvinnu við samfélagið í kringum Keflavíkurflugvöll og er þetta skýr árangur af þeim áherslum okkar. Þetta verkefni verður nú unnið frekar í góðri samvinnu Isavia, ríkis og sveitarfélaganna í nágrenni Keflavíkurflugvallar öllu nærsamfélaginu til heilla og til að við náum þeirri framtíðarsýn okkar að vera miðstöð flugs á Norður Atlantshafi“

Isavia hefur að eigin frumkvæði einnig ýtt úr vör samvinnuverkefni með sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Fyrr í þessum mánuði var haldinn fundur um undirbúning að stofnun samráðsvettvangs um samfélagsábyrgð á Suðurnesjum. Fundinn sátu fulltrúar Isavia, Kadeco, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) og fulltrúar Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Suðurnesjabæjar og Vogunum.

Markmið samráðsvettvangsins er að auka samstarf Isavia og sveitarfélaganna og annarra hagsmunaaðila á Suðurnesjum. Þannig megi vinna að sameiginlegum hagsmunum sem ein heild út frá Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.