Hoppa yfir valmynd
28.4.2021
Isavia þátttakandi í nýstofnuðum íslenskum vettvangi Global Compact

Isavia þátttakandi í nýstofnuðum íslenskum vettvangi Global Compact

Isavia er eitt þeirra félaga sem tóku á dögunum þátt í stofnun íslensks vettvangs fyrir þau fyrirtæki sem starfa á Íslandi og eru aðilar að Global Compact, þ.e. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Global Compact sáttmálinn er eitt víðtækasta verkefni heims á sínu sviði. Markmiðið með sáttmálanum er að hvetja fyrirtæki til að vinna að aukinni sjálfbærni og hafa þá til hliðsjónar tíu viðmið sem tengjast mannréttindum, umhverfismálum, spillingavörnum og vinnurétti. Fyrirtæki sem eru aðilar að Global Compact geta notað sáttmálann til að segja frá sjálfbærnistefnu sinni og hvernig henni er fylgt. Slík stefna hefur á síðustu misserum fengið enn mikilvægari sess í rekstri fyrirtækja og getur jafnvel verið forsenda viðskipta. 

Það eru 24 íslensk fyrirtæki sem eru aðilar að Global Compact í dag og Isavia er þar á meðal. Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia, á sæti í stjórn vettvangsins. Hún segir að stofnun hans hafi verið löngu tímabær. „Við hjá Isavia höfum verið aðilar að Global Compact síðan 2016 og höfum fylgst með íslenska hópnum stækka síðan þá. Sú vinna sem er unnin á vettvangi Global Compact og á grundvelli sáttmálans er gríðarlega mikilvæg,“ segir Hrönn. „Þessi nýi íslenski vettvangur mun styðja íslensk fyrirtæki í átt að meiri sjálfbærni og efla samskipti um málaflokkinn öllum til hagsbótar.“

Hægt er að lesa nánar um þátttöku Isavia í Global Compact í nýútkominni árs- og samfélagsskýrslu Isavia fyrir árið 2020.

Fyrsta stjórn vettvangsins var kosin á fundi nýlega. Í henni sitja eftirfarandi aðilar. 

  • Hrefna Sigríður Briem, Háskólanum í Reykjavík
  • Hrönn Ingólfsdóttir, Isavia
  • Jóhanna Harpa Árnadóttir – formaður, Landsvirkjun
  • Reynir Smári Atlason, Landsbankanum
  • Þorsteinn Kári Jónsson - varaformaður, Marel 

Samtök atvinnulífsins eru tengiliður fyrir vettvanginn á Íslandi. Fram kom í frétt SA um formlega stofnun vettvangsins að ákveðið hefur verið að leggja áherslu á að efla samstarfið út fyrir landsteinana, bæði við höfuðstöðvar Global Compact  í New York en einnig við Norðurlandanetið.

Frá vinstri: Hrönn Ingólfsdóttir - Isavia, Þorsteinn Kári Jónsson - Marel, Jóhanna Harpa Árnadóttir - Landsvirkjun, Reynir Smári Atlason - Landsbankanum og Hrefna Sigríður Briem - Háskólanum í Reykjavík.