Hoppa yfir valmynd
27.1.2016
Isavia tilnefnt til alþjóðlegra verðlauna á sviði flugleiðsögu fyrir tvö verkefni

Isavia tilnefnt til alþjóðlegra verðlauna á sviði flugleiðsögu fyrir tvö verkefni

Isavia hefur verið tilnefnt til IHS Jane‘s verðlaunanna fyrir tvö verkefni sem unnin voru á flugleiðsögusviði. Um er að ræða ADS-B væðingu í íslensku flugstjórnarmiðstöðinni og verkefni sem unnið var með írskum flugmálayfirvöldum við að setja upp VCCS Virtual Center, samtengt fjarskiptastjórnkerfi í Gufunesi og Ballygirren á Írlandi.

Hraðbraut yfir hafið

Isavia er fyrsti flugleiðsöguaðilinn í Evrópu til að taka upp ADS-B aðskilnað og nú má segja að kominn sé hraðbraut á milli Evrópu og Norður-Ameríku innan íslenska flugstjórnarsvæðisins. ADS-B tæknin byggir á GPS gögnum og gefur nákvæmari og örari upplýsingar um staðsetningu flugvéla en til að mynda radar. Með ADS-B væðingu er hægt að minnka aðskilnað á umferðarmesta hluta íslenska flugstjórnarsvæðisins úr 50-120 sjómílum niður í 10 sjómílur. Breytingin getur orðið til þess að minnka eldsneytisnotkun verulega í flugstjórnarsvæðinu með tilheyrandi minni útblæstri og sparnaði fyrir flugfélög.

Aukin samvinna við Íra um samtengt fjarskiptastjórnkerfi

Með aukinni samvinnu við írsk flugmálayfirvöld við rekstur flugfjarskiptastöðva hefur nú verið komið á fót í fyrsta sinn í heiminum samtengdu fjarskiptastjórnkerfi. Með þessu nýja samtengda kerfi er hægt að skipta umferð á milli flugfjarskiptastöðvanna tveggja í Gufunesi og Ballygirreen á Írlandi á álagstímum auk þess sem önnur stöðin getur algjörlega tekið yfir starfsemi hinnar ef til neyðartilvika kemur. Samstarfið er einstakt á heimsvísu.

30 milljón ferðalög á ári

Frá Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík stýrir Isavia flugumferð í einu stærsta flugstjórnarsvæði heims og kemur þannig að ferðalagi 30 milljóna manna ár hvert. Svæðið er 5,4 milljónir ferkílómetra að stærð og nær yfir Ísland og meiri hluta Grænlands. Íslenska flugstjórnarsvæðið tengir þrjár heimsálfur, Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu en um það fer fjórðungur flugumferðar á milli Evrópu og Norður-Ameríku auk þess sem flug á milli Asíu og Norður-Ameríku yfir Norðurpólinn hefur aukist mikið undanfarin ár. Starfsemin er rekin á notendagjöldum og skilar á sjötta milljarð króna á ári í gjaldeyristekjur til þjóðarinnar.

Verðlaunin verða afhent á World ATM flugleiðsöguráðstefnunni í Madrid 7. mars næstkomandi. Lista yfir verkefnin sem tilnefnd eru er að finna á vef CANSO, sem eru alþjóðleg samtök flugleiðsöguveitenda: http://www.canso.org/shortlist-revealed-ihs-janes-atc-awards-2016