Hoppa yfir valmynd
13.8.2015
Isavia úthlutar 4,7 milljónum til samfélagsmála

Isavia úthlutar 4,7 milljónum til samfélagsmála

Í gær, miðvikudaginn 12. ágúst, úthlutaði Isavia styrkjum úr samfélagssjóði félagsins fyrir fyrri hluta ársins 2015. Fjölmargar umsóknir um styrki bárust til sjóðsins vegna ýmissa góðgerðarmálefna á þessu ári og úthlutaði fyrirtækið alls 4.755.000 krónum til 21 verkefnis. Verkefnin sem hlutu styrk eru fjölbreytt og tengjast til að mynda forvarnarstarfi, líknar- og góðgerðarmálum og umhverfisvernd. Úthlutunin fór fram í skrifstofum Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Þau verkefni sem hlutu styrki fyrir fyrri hluta árs 2015 eru eftirfarandi:

  • Ásbrú, styrkur vegna gróðursetningar á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll
  • Hollvinasamtök Sólvangs, styrkur til tækjakaupa.
  • Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki, vegna starfrækslu sumarbúða fyrir börn og unglinga með sykursýki.
  • Karlakór Keflavíkur, styrkur vegna Kötlumótsins sem haldið er í Reykjanesbæ þar sem um 700 kórfélagar víðsvegar af landinu koma saman.
  • Viktor Ingi Elíasson, vegna þátttöku á Norrænu barna og unglingamóti fatlaðra.
  • Sigvaldi Arnar Lárusson Lögreglumaður, vegna göngu hans frá Keflavík til Hofsóss í sumar til styrktar Umhyggju, félags langveikra barna.
  • Berent Karl Hafsteinsson, umferðarforvarnir í grunnskólum á Suðurnesjum.
  • Minnisvarði um þá sem fórust með Liberator Hot Stuff herflugvélinni sem fórst í seinni heimstyrjöldinni á Fagradalsfjalli á Reykjanesi.
  • Styrkir fyrir barna- og unglingastarf allra íþróttafélaga á Suðurnesjum, þ.e. félögum í Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar, í Garði, Sandgerði, Vogum og Grindaví
  • Félag Heyrnarlausra: Framleiðsla á þáttunum Tinna Táknmálsálfur

Stuðningur við fjölda samfélagsmálefna

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.

„Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur að styrkja þessi góðu málefni og ég er sannfærður um að styrkirnir komi að góðum notum og nýtist þar sem þeirra er þörf. Við hjá Isavia styðjum við bakið á hinum ýmsu samfélagslegu málefnum í gegnum styrktarsjóði okkar. Auk fyrrgreindra styrkja er megin fjárhagsstuðningur fyrirtækisins til björgunarsveita um allt land í gegnum Styrktarsjóð Isavia hjá Landsbjörgu.  Þá eru staðsettir söfnunarbaukar fyrir 5 góðgerðarfélög í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli sem njóta góðs af fjárframlögum farþega í flugstöðinni. Auk þessa hefur Isavia verið með samstarfssamning við HR og HÍ um styrki til meistara- og doktorsverkefna.“ 

Isavia annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi og stýrir jafnframt flugumferð í íslenska flugstjórnarsvæðinu sem er 5,4 milljónir ferkílómetrar að stærð og eitt það stærsta í heiminum. Hjá móðurfélagi Isavia starfa um 850 manns. Auk þess starfa tæplega 160 manns hjá Fríhöfninni og um 50 hjá Tern, dótturfélögum Isavia.